90% barna í Sýrlandi þurfa á aðstoð að halda

Sýrlensk börn eiga um sárt að binda.
Sýrlensk börn eiga um sárt að binda. Ljósmynd/Aðsend

Eftir 10 ár af stríði í Sýrlandi þurfa um 90% barna í landinu á aðstoð að halda, sem er um 20% aukning á einu ári.

Á þessum tíu árum sem eru í dag liðin síðan stríðið í landinu hófst hafa sex milljónir barna fæðst í Sýrlandi og í flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum sem þekkja ekkert nema stríð, að því er segir í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

Ljósmynd/Aðsend

„Á hverjum einasta degi síðastliðin tíu ár hafa gróf brot verið framin á réttindum barna. Þau hafa verið drepin, særð alvarlega, notuð í vopnuðum átökum og skólarnir þeirra sprengdir í loft upp. Ótal börn hafa drukknað á flótta frá hörmungunum. Börn bera aldrei ábyrgð í stríði en það eru þau sem bera mestan skaða af átökunum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningunni.

Ljósmynd/Aðsend

Fram kemur að börnin eigi minningar frá síðustu árum sem engin börn ættu að þurfa að upplifa. Fallnir ástvinir, skólinn sem er ekki lengur til og hættulegur flótti yfir til Evrópu.

„UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur veitt milljónum barna frá Sýrlandi neyðarhjálp síðan stríðið hófst. Það hefði ekki verið hægt án víðtæks stuðnings almennings um allan heim, þar á meðal á Íslandi – bæði frá heimsforeldrum og þeim sem stutt hafa neyðarsöfnunina okkar,“ segir í tilkynningunni.

Ljósmynd/Aðsend

Tíföldun fólks á flótta

„Ástandið er slæmt um allt Sýrland. Á síðasta ári hefur verð á matarkörfunni hækkað um meira en 230 prósent og fjölskyldur eiga erfitt með að ná endum saman. Innan Sýrlands þarfnast fimm milljónir barna mannúðaraðstoðar. Um 2,6 milljónir barna eru á vergangi og hafa neyðst til að flýja heimili sín og búsetuúrræði margoft og annar eins fjöldi hefur flúið yfir landamærin til nágrannaríkja og búa nú í flóttamannabúðum. Þetta er tíföldun fólks á flótta frá Sýrlandi síðan 2012 sem setur aukið álag á nágrannasamfélögin sem eiga í erfiðleikum fyrir, eins og til dæmis Líbanon,“ segir einnig í tilkynningunni.

„UNICEF á Íslandi hefur verið í neyðarsöfnun fyrir börn frá Sýrlandi í fjölda ára. Við þökkum öllum þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa stutt söfnunina og með því hjálpað börnum í Sýrlandi sem búa við ólýsanlega neyð. Hægt er að hjálpa með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert