Ekki ótækt að Ísland fari sérleið með vottorð

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála iðnaðar og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála iðnaðar og nýsköpunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Út frá sóttvörnum skiptir ekki máli hvaðan einstaklingur er að koma ef hann er með vottorð þess efnis að hafa verið bólusettur.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, en hún telur mikilvægt að leitað verði allra leiða til að koma á gagnkvæmri viðurkenningu sem allra fyrst svo bólusetningarvottorð verði tekin gild hvað varðar lönd sem standa utan Schengen-samstarfsins, en í dag eru aðeins vottorð þaðan tekin gild hér á landi.

Þórdís segir þetta verkefni sem þyrfti að leysa og þegar komi að enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar þá skipti þetta miklu máli. Tveir af stærstu mörkuðum Íslands undanfarin ár hafa verið Bandaríkin og Bretland, en vottorð frá þessum löndum eru ekki tekin gild hér á landi eins og staðan er núna. Er það gert samkvæmt tilmælum ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Í fyrra var í skoðun hér á landi að opna landamærin fyrir ferðamönnum utan Schengen-svæðisins. Ekkert varð úr því eftir að ráðherraráðið tók neikvætt í hugmyndir Íslands og sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í Morgunblaðinu í morgun að ólíklegt væri að íslensk stjórnvöld færu aðra leið í ár.

Aðspurð hvort hún telji ótækt að Ísland ákveði einhliða að taka vottorð utan Schengen-svæðisins gild segist Þórdís ekki telja það ótækt. „Við eigum einfaldlega ofboðslega mikið undir því, þegar aðstæður leyfa, að við náum aftur almennilegum tengingum við umheiminn,“ segir hún. „Okkar verkefni að leita allra leiða til að opna þegar við getum með þeim ráðstöfunum sem við teljum þurfa og við erum fullfær að taka slíkar ákvarðanir á okkar forsendum. Höfum almennt komið því þannig fyrir og þurfum að vega og meta hagsmuni okkar sem samfélags.“

Fyrr í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að það hljómi undarlega að vottorð utan EES-svæðisins, meðal annars frá Bretlandi og Bandaríkjunum, séu ekki tekin gild hér á landi. Víkur hann nánar að útfærslum í þessum mál­um í minn­is­blaðinu sem hann sendi ráðherra í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert