Mega sýna vottorð úr eigin landi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnvöld ganga frá reglugerðum í vikunni sem verða þess valdandi að Bandaríkjamenn og Bretar sem hafa verið bólusettir geta komið til landsins með vottorð frá heimalandinu um bólusetninguna.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

„Við heilbrigðisráðherra lögðum báðar til að breyta okkar reglugerðum sem varða viðurkenningu vottorða utan Schengen. Ég mun einnig breyta því að bann við tilefnislausum ferðum yfir landamæri frá löndum utan Schengen gildi ekki fyrir þá sem eru bólusettir eða með mótefni.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði: „Við erum í raun og veru að opna meira.“ Reglugerðarbreyting um vottorð á landamærum er að hluta til á forræði hennar ráðuneytis.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug segir að bólusetningarnar verði að vera með efnum sem Lyfjastofnun Evrópu hafi þegar samþykkt. Rússar með Spútnik V þurfa því að hinkra enn um sinn og þeirra vottorð verða ekki tekin gild. „Vonandi munu fleiri bóluefni fljótlega falla undir þetta,“ segir Áslaug þó.

Vakin var athygli á þessum hömlum gagnvart ríkjum utan Schengen í vikunni og talsmenn ferðaþjónustunnar hafa sagt þetta koma mjög niður á viðskiptum þeirra.

„Þetta verða stórar breytingar,“ segir Áslaug. „Þessi lönd eru okkar stærstu ferðamannalönd og gera mikið fyrir okkar efnahagslíf og þau eru komin langt í bólusetningu með þeim efnum sem Lyfjastofnunin samþykkir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert