Mögulegt gossvæði stækkað

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlis­fræðing­ur hjá Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands.
Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlis­fræðing­ur hjá Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við finnum mismikið af skjálftum og þegar við finnum þá höldum við að eitthvað mikið sé að gerast. Virknin í kvikuganginum og innstreymi kviku virðist hins vegar mun jafnara ferli,“ segir Frey­steinn Sig­munds­son, jarðeðlis­fræðing­ur hjá Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, við mbl.is.

Freysteinn segir að lítið hafi verið um stóra jarðskjálfta í dag en „einungis“ fjórir skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst í dag og stærsti skjálfti dagsins mældist 3,4. Kvikuflæði er hins vegar svipað og það hefur verið undanfarna daga og vikur.

Hann sat fund vísindaráðs almannavarna í dag þar sem meðal annars var farið yfir gervihnattamynd sem tekin var af skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga í gær og aðra sem tekin var síðastliðinn laugardag.

Freysteinn segir stöðuna svipaða og áður; enn eru líkur á því að kvika geti brotist upp á yfirborð jarðar.

Athyglisverð tímalengd

Mesta skjálftavirknin núna sé í kvikuganginum við norðaustanvert Fagradalsfjall. Mögulegt gossvæði hefur, að hans mati, stækkað og er nú bundið við Fagradalsfjall og nágrenni en ekki suðurhluta fjallsins eða sunnan við það.

Líkurnar á eldgosi eru svipaðar og þær hafa verið síðustu daga að sögn Freysteins. „Á meðan kvika streymir inn í kvikuganginn eru líkur á því að hún geti náð upp á yfirborðið. Hún fyllir meira og meira í jarðskorpuna og það pláss sem hún hefur neðanjarðar.“

Hann segir tímalengdina á þróun kvikugangsins, frá 24. febrúar, athyglisverða. Á hverjum degi streymi ný kvika inn í ganginn en á sama tíma er hluti af kvikuganginum að storkna og breytast í berggang; kviku sem mun ekki geta gosið.

Freysteinn segir enn fremur engin merki um að það sé að draga úr jarðhræringunum og engin merki um að kvikugangurinn sé að færast nær yfirborði jarðar en hann er á um eins kílómetra dýpi þar sem grynnst er á hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert