Foreldrar safna undirskriftum

Foreldrar barna í Fossvogsskóla hafa hafið söfnun undirskrifta.
Foreldrar barna í Fossvogsskóla hafa hafið söfnun undirskrifta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrar barna í Fossvogsskóla hafa hafið söfnun undirskrifta til þess að þrýsta á aðgerðir varðandi skólann. Heilsuspillandi mygla hefur greinst í skólanum nú í nokkur ár. 

Undirskriftalistinn sem mbl.is hefur undir höndum, fór af stað fyrr í dag og þegar hafa á þriðja hundrað foreldra skráð sig á hann. 

Í áskoruninni sem fylgir listanum er þungum áhyggjum af stöðu skólans lýst sem og ótta við áhrif myglunnar á börnin í skólanum.

„Ástand skólans skerðir lífsgæði barna og starfsfólks og stofnar heilsu þeirra í hættu. Við minnum á að myglumengun getur haft varanleg og skaðleg áhrif á heilsu,“ segir í áskoruninni. 

„Við hörmum að rúmum tveimur árum eftir að fyrst var farið að vinna í málinu hafi ekki enn tekist að uppræta myglu í skólahúsinu. Við teljum einsýnt að grípa þurfi til víðtækra aðgerða til að tryggja, í eitt skipti fyrir öll, að börnum sem stunda skyldunám við Fossvogsskóla og starfsfólki skólans sé ekki boðið upp á dvöl í heilsuspillandi húsnæði.“

Skorað er á borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa, stjórnendur skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og stjórnendur Fossvogsskóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert