Gengið að kröfu foreldra

Foreldrar barna í Fossvogsskóla.
Foreldrar barna í Fossvogsskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólastarf í Fossvogsskóla mun fara fram á nýjum stað frá og með mánudegi. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Ingibjörgu Ýri Pálmadóttur skólastjóra eftir fund sem haldinn var með foreldrum, starfsfólki og borgarfulltrúum í skólanum í dag.

Á fundinum var lögð fram áskorun rúmlega 250 foreldra í skólanum sem kröfðust aðgerða þegar í stað vegna myglu sem greinst hafði í skólanum fyrir nokkrum árum. Raunar hefur verið gripið til aðgerða, en þær hafa ekki reynst nægar til að vinna bug á myglunni og vilja foreldrarnir að börnunum sé fundið annað húsnæði þar til gengið hefur verið úr skugga um að myglan sé horfin.

„Þegar það er svona skýr vilji foreldra til að nemendur fari ekki inn í skólahúsnæðið, þá er ekki í boði annað en bregðast hratt við,“ segir Ingibjörg Ýr í samtali við mbl.is. Á morgun, fimmtudag, fer kennsla fram utandyra á svæði Víkings og á föstudag er starfsdagur.

Aðspurð segir Ingibjörg að engir augljósir staðir séu fyrir skólastarfið næstu mánuði. „Það er engin lausn í sjónmáli í bili, en þetta verður bara skoðað á morgun,“ segir Ingibjörg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert