Aðkoma að manndrápsmáli samræmist starfsskyldum

Þrír sitja nú í gæslu­v­arðhaldi vegna máls­ins.
Þrír sitja nú í gæslu­v­arðhaldi vegna máls­ins. mbl.is

Lögmaðurinn Steinbergur Finnbogason segir að aðkoma hans að manndrápsmálinu í Rauðagerði hafi verið í fullu samræmi við starfsskyldur verjenda.

„Samskipti mín og aðkoma að málinu voru í fullu samræmi við starfsskyldur verjenda,“ segir hann og bætir við að möguleg samskipti við vitni og/eða aðra sakborninga hafi verið í samræmi við það.

Landsréttur staðfesti á dögunum úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi skipun Steinbergs, verjanda eina Íslendingsins sem er sakborningur í málinu.

Steinbergur Finnbogason.
Steinbergur Finnbogason.

Ekki verið boðaður í skýrslutöku

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að við rannsókn og úrvinnslu fjarskiptagagna hafi komið í ljós að Steinbergur hafi verið í samskiptum við aðra sakborninga málsins bæði fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi í málinu. Einnig kemur fram að vitni segjast hafa hitt hann og rætt við hann eftir að brotið var framið og eftir að hann var skipaður verjandi. Þess vegna telur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu nauðsynlegt að taka skýrslu af Steinbergi með réttarstöðu vitnis.

Steinbergur segist ekki enn hafa verið boðaður í skýrslutöku af lögreglunni, en rúm vika er liðin síðan úrskurður héraðsdóms þess efnis lá fyrir. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ljótur leikur lögreglu“

Spurður hvort úrskurður Landsréttar hafi komið honum á óvart segir hann lagagreinina vera mjög opna sem meini mönnum að velja sér verjanda ef þeir gætu verið matsmenn eða vitni í máli. Hvað það varðar komi úrskurðurinn ekki á óvart.

„En það kemur á óvart að lögreglan skuli beita sér með þessum hætti í ljósi þess að eftir því sem ég best veit hefur það aldrei orðið þannig að lögmanni sem hefur verið meinað að vera verjandi á þeim grundvelli að hann gæti mögulega verið vitni hafi í raun verið vitni,“ segir Steinbergur og bætir við að lögreglan hafi beitt þessu úrræði í nokkur skipti. „Þetta er ljótur leikur lögreglu.“

Þrír sitja nú í gæslu­v­arðhaldi vegna máls­ins. Tveir voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert