Fossvogsskóli flytur í Grafarvoginn

Kennsla nemenda Fossvogsskóla fer fram í Korpuskóla.
Kennsla nemenda Fossvogsskóla fer fram í Korpuskóla. mbl.is/Ófeigur

Nemendum Fossvogsskóla verður kennt í húsnæði Korpuskóla frá og með þriðjudeginum. Húsnæðið hefur ekki verið notað undir kennslu frá því að skólar í Grafarvogi voru sameinaðir.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Hann segir húsnæðið hafa verið langbesta kostinn í stöðunni meðal annars vegna þess að í húsnæði Korpuskóla verður hægt að koma fyrir öllum nemendum Fossvogsskóla. Það séu að mati skólastjórnenda ómetanleg gæði. Um 350 nemendur eru í Fossvogsskóla.

Skipulagsdagur verður á mánudaginn til að undirbúa skólastarfið sem hefst daginn eftir. Börnum verður ekið á hverjum morgni frá Fossvogsskóla upp í Grafarvog og til baka.

Á mánudaginn verður frístundastarf fyrir 1. og 2. bekk í Neðstalandi frá kl. 8:30 og fram eftir degi eins og venja er. Nemendum í 3. og 4. bekk, sem eru skráðir í frístund, stendur til boða að koma á sínum venjulega tíma frá kl. 13:40.

Foreldrar barna í skólanum eiga von á bréfi með ítarlegri upplýsingum.

mbl.is