Smágos enn sem komið er, en gæti stækkað

Bjarminn frá eldgosinu séð úr linsu ljósmyndara mbl.is í kvöld.
Bjarminn frá eldgosinu séð úr linsu ljósmyndara mbl.is í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur og sérfræðingur um eldgos á Reykjanesskaga, segir eldgosið sem hófst á Fagradalsfjalli í kvöld vera afar lítið miðað við önnur fyrri gos á Íslandi, en það geti þó stækkað.

„Eins og staðan er núna er þetta bara smágos,“ segir Sigmundur við mbl.is.

„Þetta er bara framhald af því sem hefur verið að gerast þarna síðustu árþúsund og á þessu svæði hafa bara verið smágos hingað til. Ég býst við að það muni ekki breytast.“

mbl.is

Þó sé ekki útilokað að fleiri eldgos byrji á svæðinu.

„Það er ekki víst að það sé bara eitt gos. Þau geta komið í hrinum og staðið yfir í langan tíma,“ segir Sigmundur.

Afar smáir gosstrókar

Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir telur Sigmundur að ekki sé um sprengigos að ræða.

„Þetta er bara lítið flæðigos. Það rennur hraun þarna hægt og rólega, en það alveg þekkt í svona gosum að sprungur eiga það til að rifna upp og lengjast.“

Sigmundur Einarsson jarðfræðingur.
Sigmundur Einarsson jarðfræðingur.

Gossprungan, sem er 200 metrar, sé tiltölulega lítil að hans sögn.

„Ef gossprungan er 200 metra löng, þá eru gosstrókarnir bara nokkrir tugir metra. Ég man eftir því þegar ég var vitni að Heklugosi, þá töldum við gosstrókana vera 400 metra. Svo miðað við það er þetta ekki neitt neitt“. 

Mun jarðskjálftahrinan þá enda í kjölfar þessa goss?

„Ég reikna með því að hún sé verulega langt komin, já. Það er búið að losna svo mikil spenna í þessum skálftum, þetta getur ekki haldið áfram endalaust.“

mbl.is