Fólk fann fyrir sviða í augum og óþægindum

Otti Rafn Sigmarsson í björgunarsveitinni í Grindavík.
Otti Rafn Sigmarsson í björgunarsveitinni í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Otti Rafn Sigmarsson í björgunarsveitinni í Grindavík segir að mjög hættulegt sé að vera í kringum gosstöðvarnar og að í nótt hafi fólk sem var þar fundið fyrir sviða í augum og öðrum óþægindum vegna gasmengunar.

Í samtali við blaðamann mbl.is í Grindavík segir Otti að aðstæður til að komast að eldstöðvunum séu mjög erfiðar. „Það er mikið gas í kringum gosstöðvarnar sem leggst lágt og töluverð mengun alveg næst.“

Otti segir að allir sem hafi verið á svæðinu hafi verið búnir sérstakri öndunargrímu, auk þess sem flestir hafi verið með hlífðargleraugu og eigi það meðal annars við um alla í björgunarsveitinni. Hann hafi þó heyrt af fólki sem hafi fundið til sviða og annarra óþæginda sem ekki hafi verið með slík gleraugu og það bendi til þess að mengunin sé umtalsverð. „Þetta er náttúrlega eldgos og þau eru hættuleg,“ segir hann.

Eldgosið er í Geldingadal og er sá dalur nokkuð lokaður af. Otti segir að þess vegna geti verið mjög hættulegt að fara nálægt og það sama eigi við um aðra dali og lægðir í kring.

Hann á von á því að björgunarsveitir muni í dag aðstoða vísindafólk við að komast að svæðinu.

Gosið er í Geldingadal við Fagradalsfjall. Gas getur þar verið …
Gosið er í Geldingadal við Fagradalsfjall. Gas getur þar verið í dölum og lægðum og því varhugavert að fara á svæðið. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert