„Svæðið er ekki lokað, en það er hættulegt og varasamt“

Svæðið í kringum gosstöðvarnar í Geldingadal við Fagradalsfjall er ekki lokað, en það getur hins vegar verið hættulegt. Þetta segir Víðir Reynisson hjá Almannavörnum, en hann setur fram nokkrar ráðleggingar og varúðarorð til þeirra sem hyggjast halda á svæðið í dag.

Víðir segir að gosið hafi minnkað mikið frá í nótt og gossprungan sem nú gjósi úr sé um 200 metra löng. Hún var til samanburðar um einn kílómetri í nótt. Þá er hraunið sem rennur frá sprungunni í lokuðum dal og því kemst það ekki í burtu. Lítil framleiðsla gosefna þýðir að sögn Víðis að það sé minni gasframleiðsla, „þannig að þetta er allt saman jákvætt“.

Myndir af gosinu í Geldingadal við Fagradalsfjall sem voru teknar …
Myndir af gosinu í Geldingadal við Fagradalsfjall sem voru teknar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir þó að hafa þurfi varann á gagnvart gasmengun og nú sé unnið að frekari mælingum til að passa upp á að hún komi ekki í bakið á fólki. „En allt sem bendir til að ekki verði gasmengun í byggð,“ segir víðir.

  • Svæðið í kringum gosið er sem fyrr segir ekki lokað og segist Víðir gera sér grein fyrir að margir vilji nálgast það til að sjá gosið. „Það er samt hættulegt og varasamt.“ Vill hann koma nokkrum ábendingum til fólks sem hyggur á ferð þangað.
  • Við gosstöðvarnar gæti gas legið í lægðum og þá geta þar líka verið næst gosstöðvunum gastegundir sem ryðja burt súrefni.
  • Gosstöðvarnar geta breyst án fyrirvara. Þannig opnaðist ný sprunga á Fimmvörðuhálsi nánast undir fótum fólks sem var á svæðinu. „Þótt það séu ekki stórar breytingar getur það sett fólk í hættu,“ segir Víðir.
  • Torveld aðkoma. Víðir bendir á að það þurfi að ganga yfir hraun sem ekki sé þægilegt að fara yfir til að komast að gosstöðvunum. Fólk þarf því að vera vant göngu og vel búið. Nefnir hann að ganga fram og til baka frá Suðurstrandarvegi gæti tekið allt að 6-8 klst.
  • Veðurspáin í dag er ekki góð. Það er spáð meira hvassviðri og úrkomu þegar líður á daginn. Fólk þarf því aftur að vera vant útivist og vel búið.
  • Á svæðinu er næstum ekkert símasamband í almenna símakerfinu. Fólk þarf að hafa þetta í huga ef eitthvað kemur upp. Þó hefur betra sambandi fyrir VHF og tetra verið komið upp á svæðinu, en Víðir segir ekki hægt að treysta á það.
  • Suðurstrandarvegur um Festarfjall er lokaður vegna skemmda á veginum eftir skjálfta upp á 5,4 sem varð beint undir veginum. Þar getur því reynst erfitt að komast að svæðinu.
  • Verið er að skoða hvar best væri að koma að svæðinu upp á bílastæði, en Víðir bendir fólki á að ekki megi leggja í vegkanti og skilja bíla eftir. Það geti einnig haft áhrif til tafa fyrir viðbragðsaðila og vísindafólk.
  • Grundvallarreglan er að nálgast svæðið með vindinn í bakið til að koma í veg fyrir gaseitrun. Segir Víðir því mikilvægt að skoða veðurspá fyrir svæðið áður en lagt er af stað.

„Við mælum gegn því að fólk fari á staðinn, en erum líka að ráðleggja fólki sem ætlar sér að fara nær,“ segir hann og bætir við að lokum: „Svæðið er ekki lokað, en það er hættulegt og varasamt.“

Víðir Reynisson hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson hjá almannavörnum. Ljósmynd/Almannavarnir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert