Ritgerð um Fagradalsfjall rætist 23 árum síðar

Gos í Geldingadal.
Gos í Geldingadal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigfús Eyjólfsson jarðfræðingur og forritari segir það spennandi að fylgjast með eldgosinu í Geldingadal. Það þarf ekki að koma á óvart enda skrifaði hann lokaritgerð sína í jarðfræðinámi við Háskóla Íslands um sprungur við Fagradalsfjall og kortlagningu þeirra, einmitt þar sem nú gýs.

„Það gýs þarna núna eftir mörg hundruð ára goshlé þannig að það er skemmtilegt að sjá margt rætast af því sem var rannsakað þarna á sínum tíma, þótt þetta gos sé ekki nákvæmlega eins og búist er við í ritgerðinni,“ segir Vigfús við mbl.is.

„Jú, það er auðvitað spennandi,“ segir hann spurður um hvort það sé ekki gaman að fá að lifa gos á þessu svæði, þar sem ekki hefur gosið í 800 ár, í ljósi þess að hann kortlagði svæðið á sínum tíma. 

Vann með Páli Einarssyni

Vigfús lýsir að hann hafi verið í áfanga í HÍ er sneri að kortlagningu sprungukerfa og hann og fleiri hafi unnið við kortlagningu sprungukerfa við Fagradalsfjall og annars staðar á Suðurlandi. Þá var notast við kort frá Jóni Jónssyni jarðfræðingi. 

Við þessa vinnu kannaði Vigfús sprungur í Fagradalsfjalli sem hann sá við skoðun á svæðinu og spurði kennara sinn, Pál Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, hvort gysi á þeim sprungum. Svo fór að Vigfús kortlagði sprungurnar í fjallinu og gerði úr þeirri vinnu bakkalárverkefni undir leiðsögn Páls. Niðurstaðan var sú að tengsl voru milli sprungukerfanna og eldvirkni við fjallið.  

„Þegar þessi gangur byrjaði þarna á Reykjanesskaga þá fóru einstaka jarðeðlisfræðingar að hafa samband við mig og spyrja hvar ritgerðin væri. Ég fór því og skannaði hana inn og svo þegar áhuginn varð meiri þá ákvað ég að birta hana á vefnum.“

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sprungurnar tengjast eldvirkni

Vigfús segir að áður en hann hóf að kortleggja sprungur í og við Fagradalsfjall hafi hann rætt við Pál um hvort gysi upp úr þeim, eins og fyrr segir. Hann segir að Páll hafi þá sagt það ólíklegt enda talið að um jarðskjálftasprungur væri að ræða. Þó að vissulega gjósi ekki upp úr þeim sprungum sem Vigfús kortlagði tengjast þær samt eldstöðinni í Fagradalsfjalli sterkum böndum.

Í niðurstöðum ritgerðarinnar segir meðal annars: 

„Tengsl eldvirkninnar á þessu svæði við sniðgengi vekur spurningar um eðli hennar. Flestar stærri gossprungur á Reykjanesskaga hafa strikstefnu í NA-SV, þ.e. stefna hornrétt á ás minnstu þrýstispennu. Gangurinn sem fóðrar gosið opnast þannig á móti minnstu mótstöðu. Ef lárétt skrúfspenna er há í upphafi kvikuvirks tímabils má hins vegar sýna fram á að sprungur geta myndast undir öðru horni en 90° og að hreyfingar um þær hafi verulegan sniðgengisþátt. Vel má hugsa sér að slíkar aðstæður geti verið fyrir hendi á Reykjanesskaga eftir langt tímabil án kvikuvirkni, til dæmis nú um þessar mundir, eftir u.þ.b. 650 ára goshlé.“

mbl.is