Stórbrotnar drónamyndir af gosinu

Fyrstu drónamyndirnar af eldgosinu í Fagradalsfjalli eru byrjaðar að berast og mbl.is sýnir hér myndir sem Sigurður Þór Helgason tók við krefjandi aðstæður yfir gosinu í nótt og þær eru í einu orði sagt stórbrotnar.

Sigurður, sem er eigandi DJI Reykjavík-verslunarinnar, segir að mjög hvasst hafi verið á svæðinu en sjálfur var hann staddur í 5-6 kílómetra fjarlægð frá gosinu sjálfu þegar hann tók þær. Dróninn var í 500-800 metra fjarlægð frá kraumandi eldhafinu. Sigurður Þór var í slagtogi við vísindamenn Háskóla Íslands sem voru að safna upplýsingum og gosið sem hófst í Geldingadal í gær.

Um tíma óttaðist hann um tækið, DJI Matrice 300 RTK, sem kostar fleiri milljónir þegar hann missti samband við drónann sem þurfti að nauðlenda. En best er að láta myndirnar í myndskeiðinu tala sínu máli.

mbl.is