„Svo lítið að ég veit ekki hvort það fái nokkurt nafn“

Eldgos í Geldingsdal.
Eldgos í Geldingsdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, segir mikilvægt að líta á eldgos við Geldingadal austan í Fagradalsfjalli sem þátt í mun stærri atburðarás. Hann segir gosið vera eitt minnsta gos sem sögur fari af, með þeim fyrirvara þó að „það eru ekki mörg svona minni gos sem eru þekkt“.

Spurður hvort það hraun sem hefur myndast í gosinu mætti kenna við Geldingadal, Geldingahraun, segir Páll: 

„Það er líklegt, en þetta er nú svo lítið að ég veit ekki hvort það fái nokkurt nafn.“

Páll einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll einarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um er að ræða 180 metra langa gossprungu með allnokkrum gosopum. 

„Þetta rennur mjög hægt, það er mjög hæg atburðarás í kringum þetta. En af því að þetta er niðri í dal er ekki sérlega sniðugt fyrir fólk að vera þarna niðri út af gashættunni, því gasið hefur tilhneigingu til að sitja í lægðunum og þá getur fólk óvart vaðið út í gaspoll ef það er í lægstu stöðu,“ segir Páll en bætir þó við að þar sem gosið sé lítið myndist sömuleiðis lítið gas, ólíkt því sem var upp á teningnum í Holuhraunsgosinu.

„Það sem gerði þetta svo varasamt í Holuhraunsgosinu var að þar varð svo mikið hraun. Það var náttúrlega margfalt stærra gos, miklu stærra. Flatarmálið á þessu hrauni núna er 0,06 ferkílómetrar, en í Holuhrauninu var það um 84 ferkílómetrar, það var þúsund sinnum stærra,“ segir Páll. 

Langur aðdragandi 

Páll telur ekki líklegt að annað gos brjótist út á meðan enn gýs í Geldingadal. Hann segir þó mikilvægt að horfa á stærra samhengið, aðdragandinn að gosinu sé lengri en einungis skjálftavirkni síðustu vikna.  

„Á meðan þetta gos er í gangi eru ekki líkur til þess að það brjótist út gos á öðrum stað. En við verðum að taka það með í reikninginn að þetta er partur af miklu stærri atburðarás. Það er ekkert sem bendir til þess að umbrotunum sé í sjálfu sér að ljúka. Það getur þess vegna, fljótlega eða eftir einhvern tíma, brotist út nýtt gos eða nýr kvikugangur.

Eldgos í Geldingsdal.
Eldgos í Geldingsdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru þegar búin að vera nokkur innskot í þessari atburðarás annars staðar. Í janúar og febrúar í fyrra voru þrjú kvikuinnskot vestan við Þorbjörn, svo kom kvikuinnskot undir Krýsuvík í sumar og líklega einnig undir Reykjanesi í millitíðinni. Þessum kvikuinnskotum er líklega ekki að linna. Þetta sem er búið að vera í gangi síðustu vikur er bara einn kafli í þessari löngu sögu sem getur líklega haldið áfram,“ segir Páll. 

Hann telur þó líklegt að skjálftavirknin eigi eftir að minnka í nágrenni við gosstöðina. 

„Það er líklegt að gangurinn eins og hann er núna leiði til þess að skjálftavirknin minnki í næsta nágrenni við þennan stað. En svæðið sem hefur verið á iði síðustu 15 mánuði er miklu stærra og þar getur enn þá verið spenna, svo það er ekki þar með sagt að skjálftavirknin annars staðar á svæðinu minnki, þótt það verði eflaust austan við Fagradalsfjall.

Það er ennþá góður partur af flekaskilunum á Reykjanesskaga sem hefur ekki tekið þátt ennþá, og gæti viljað vera með í þessu. Þessi sviðsmynd sem við höfum stundum verið að draga upp, að það verði stærri skjálfti austar, hún er enn í fullu gildi,“ segir Páll. 

Minni gos týnast í jarðsögunni

Átta hundruð ár eru síðan síðast gaus á Reykjanesskaganum. Það er því ekki ólíklegt að nýtt eldgosatímabil sé hafið á svæðinu. 

„Síðasta svona eldgosatímabil stóð í allavega tvö, þrjú hundruð ár á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þá var heilmikið um eldgos á skaganum og það gæti vel verið að við séum að ganga inn í slíkt tímabil. Þá megum við búast við því að á næstu tvö til þrjú hundruð árum verði fleiri eldgos en hafa verið á síðustu öldum,“ segir Páll. 

„Það voru þá einhverjir áratugir á milli stærri gosa. Það eru ummerki eftir svona fimmtán gos á þessum þrjú hundruð árum sem þarna voru, sem er svona að meðaltali eitt gos á tuttugu ára fresti sem voru dreifð út um allan skagann, öll eldstöðvarkerfin á skaganum tóku þátt í þessu,“ segir Páll. 

Hann segir að þau gos sem ummerki séu eftir frá síðasta eldgosatímabili á Reykjanesskaganum hafi verið mun stærri umfangs en gosið nú. 

„Litlu gosin týnast í þessu. Þetta gos sem er núna á eftir að týnast í jarðsögunni, það á enginn eftir að muna eftir því í framtíðinni. Gosin hafa þessa tilhneigingu að hylja það sem eldra er. Við missum af þessum minni gosum þegar við erum að telja, því ef það kemur stórt gos hylur það minni hraun. Ætli það verði nokkur sem muni telja þetta gos með, það eru nokkrar svona minni spýjur á Fagradalsfjalli og í kringum það sem hafa varla verið taldar almennilega með,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert