„Þetta er ekta túristagos“

Þorvaldur Þórðarson segir eldgosið í Geldingadal bjóða upp á ágætt …
Þorvaldur Þórðarson segir eldgosið í Geldingadal bjóða upp á ágætt sjónarspil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, er nýkominn úr rannsóknarferð í Geldingadal í Fagradalsfjalli. Hann segir ekkert til marks um að eldvirknin sé að minnka, heldur jókst hún í dag ef eitthvað.

„Þetta var dálítið sjónarspil. Það eru fjögur gígop og eitt í miðjunni er langstærst. Það framleiðir mest af hrauni og mestu sletturnar koma upp úr því. Annar lítill gígur er frekar norðarlega á sprungunni, sem er í sífelldri suðu, en hinir eru bara með litlum skvettum,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Hvernig myndirðu lýsa þessu gosi?

„Þetta er ekta túristagos.“

Er það öruggt?

„Nei. Ég myndi ekki segja það. Ef fólk er uppi á hæðunum er það öruggt en ef það hættir sér niður í lægðirnar eða nálægt gígunum er hætta viðbúin, vegna þess að í fyrsta lagi eru þetta klepragígar, sem byggjast upp mjög hratt og eru óstöðugir – þeir geta hrunið hvenær sem er. Það safnast hraun fyrir inni í þeim og það getur gusast út.“

Stærsti gígurinn er til hægri, sá minni til vinstri en …
Stærsti gígurinn er til hægri, sá minni til vinstri en hinir vart greinanlegir, enda ekki megnugir um meira en „skvettur“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lífshættuleg gös

Svo eru það gösin, segir Þorvaldur. „Það er veruleg brennisteinsmengun frá þessu. Vindurinn þarf ekki mikið að breytast og þá er fólk komið í hættu.“

Þorvaldur beinir því til fólks sem fer, að fara mjög varlega. Það gera ekki allir.

„Við sjáum tvo sem fóru mjög nálægt gígunum og voru innan við 20 metra frá þeim. Ef fólk er að fara þarna inn úr, passa sig að vera frekar uppi á hæðunum og njóta útsýnisins. Það er ekkert skemmtilegt að lenda í brennisteinsmengun – þú getur látist af þessu.“

Jarðfræðingar háskólans snúa aftur með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Annað teymi er …
Jarðfræðingar háskólans snúa aftur með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Annað teymi er þegar farið af stað, sem sér um mælingar á hrauninu í þrívídd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki að minnka

Hópur Þorvalds fór á staðinn til að ná góðum myndböndum af hraunflæðinu og eins virkninni í gígunum. Síðan safnaði hann sýnum til að efnagreina. 

Með fyrstu molum úr hrauninu. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar tók nokkra …
Með fyrstu molum úr hrauninu. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar tók nokkra með til Reykjavíkur. mbl.is/Snorri

„Við erum að reyna margar mismunandi aðferðir. Fyrst og fremst núna er að átta sig á hver framleiðnin er í gosinu. Um leið og við höfum ágætar hugmyndir um það vitum við líka hver brennisteinsflúxinn er sem kemur út úr gígunum. Þá er hægt að fara að átta sig á þessu á raunhæfan hátt,“ segir Þorvaldur.

Hann telur ekki að gasmengun verði vandamál í byggð, eins og gosið lítur út núna. „Ég held að þetta verði fyrst og fremst í nágrenni gíganna, af því að þetta er það lítið. En ef það eykur í þurfum við að fara að huga að byggðu bóli þarna í kring. Það jókst aðeins í á meðan ég var þarna. Það var ekkert sem sagði mér það að þetta væri að minnka,“ segir Þorvaldur.

Fyrsta hraun á Reykjanesskaga frá árinu 1240.
Fyrsta hraun á Reykjanesskaga frá árinu 1240. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert