Vísindaráð varar fólk við dvöl nálægt gosstöðvunum

Eldgos í Geldingsdal á Reykjanesi.
Eldgos í Geldingsdal á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða eldgosið í Geldingadölum. Vísindaráð varar fólk við að dvelja nálægt gosstöðvunum við núverandi aðstæður. 

Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, KAUST-háskóla, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingum Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur auk fulltrúa frá Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku. Á fundinum var farið yfir úrvinnslu á nýjustu mælingum og gögnum sem vísindamenn á Veðurstofunni, Háskóla Íslands og ÍSOR hafa unnið að.

Fjórar sviðsmyndir eru nú í gildi að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild. Í fyrsta lagi getur dregið smám saman úr gosinu og því gæti lokið á næstu dögum eða vikum. Í öðru lagi geta nýjar gossprungur opnast á núverandi gosstað eða á kvikuganginum í næsta nágrenni Fagradalsfjalls. Þriðja sviðsmyndin er sú að minni líkur séu á stærri skjálftum í nágrenni Fagradalsfjalls vegna kvikuflæðis og fjórða sviðsmyndin er sú að skjálfti að stærð 6,5 gæti orðið sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum. 

Helstu hættur í nágrenni gosstöðvana eru: 

  • Nýjar sprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með engum fyrirvara. 
  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum.  
  • Gígarnir eru nú orðnir margra metra háir og geta verið óstöðugir, þeir geta brotnað og mikill og skyndilegur hraunstraumur úr þeim tekið nýja stefnu. 
  • Sprengingar geta orðið þar sem hraun rennur yfir vatnsmettaðan jarðveg og þeytt hrauni til allra átta. 
  • Hraunið rennur í lokaða dæld og geta lífshættulegar gastegundir safnast saman í dældum sem getur verið banvænt. Hættan eykst þegar vindur minnkar. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert