Fastur í línulegri dagskrá

Felix og Baldur hafa arkað saman æviveginn í aldarfjórðung. Þeir …
Felix og Baldur hafa arkað saman æviveginn í aldarfjórðung. Þeir kunna að njóta lífsins saman. mbl.is/Ásdís

Á Starhaganum vestur í bæ standa fimm litrík timburhús í röð; eitt þeirra gult eins og sólin og merkt nafninu Túnsberg. Þar búa hjónin Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, og Felix Bergsson, leikari, útvarpsmaður og fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins. Baldur og Felix eru nýorðnir afar og barnabörnin tvö eru uppáhaldsgestirnir í Túnsbergi. En þótt afahlutverkið sé augljóslega það besta í heimi eru mörg önnur hlutverk sem þeir hafa notið þess að sinna, en báðir hafa verið í krefjandi og gefandi störfum, hvor á sínu sviði.
Við spjöllum um lífið og tilveruna, samkynhneigð, ástina, uppeldi barna, ferðalög, vinnuna, hella á Suðurlandi og kraftaverkin tvö sem hafa stækkað hjörtu Baldurs og Felix um mörg númer.

Smá páfugladans

„Við kynntumst árið 1996, hvorki meira né minna. Það eru tuttugu og fimm ár síðan,“ segir Felix og segir þá hafa kynnst á barnum 22.

„Við sáumst raunar fyrst í gamla Samtakahúsinu, gula húsinu á Lindargötu sem nú er búið að rífa. En við vorum svo feimnir að við gjóuðum rétt augunum á hvor annan en þorðum ekki að tala saman,“ segir Baldur og þeir hlæja að minningunni.

„Svo heyrði ég af því að Felix væri á leiðinni á 22 á fimmtudagskvöldi þannig að ég klæddi mig í betri fötin og mannaði mig upp í það að fara í fyrsta skipti inn á 22. Ég hafði aldrei þorað áður því ég var nýkominn út úr skápnum. Ég fór svo upp á aðra hæð, sem var rými samkynhneigðra og annarra, og sá Felix við barinn. Ég gekk beint að honum og sagði hæ,“ segir Baldur.

„Já, þetta var smá páfugladans,“ segir Felix og segir Baldur hafa vakið áhuga sinn strax þegar þeir gjóuðu á hvor annan á Lindargötunni.

„Ég var samt búinn að bíta það í mig að hann væri háskólastúdent að vinna að rannsóknum og það væri ástæðan fyrir því að hann væri að væflast hjá Samtökunum. En svo var það bara dásamlegt þegar við fórum að tala saman, og höfum ekki hætt því síðan.“

Frelsistilfinningin engri lík

Baldur var 28 ára þegar hann fann kjarkinn til að koma út úr skápnum en Felix hafði komið út nokkrum árum fyrr.

„Við erum kynslóðin sem er að koma út upp úr 25 ára. Svo fer aldurinn að færast neðar eftir því sem tíminn líður og í dag eru krakkar að koma út ungir,“ segir Felix.
Þegar Baldur og Felix kynntust áttu þeir báðir að baki sambönd með konum og hvor sitt barnið.

Felix segir að hann hafi ekki lengur getað lifað í sjálfsblekkingu.

„Frelsistilfinningin að koma út úr skápnum er engri lík. Ég var búinn að lifa með þessu leyndarmáli ansi lengi,“ segir Felix.

„Í mínu tilviki var erfiðast að takast á við eigin fordóma; að þora að vera maður sjálfur. Ég sá ekki fyrir mér að það væri hægt að lifa þokkalegu lífi sem samkynhneigður karlmaður. Samkynhneigðir voru bara annars flokks þegnar. Mig langaði ekkert að ganga inn í þann veruleika. Það var svo sérstakt að um leið og fólk kom út úr skápnum sem hommi eða lesbía, þá missti það fullt af réttindum! Það mátti ekki gifta sig, ekki telja skatt fram saman, ekki ættleiða börn. Bara yfirlýsingin ein og sér gerði mann að annars flokks þegni, bæði samfélagslega og lagalega,“ segir Baldur.

Magnað að finna samhljóm

Við bökkum aðeins og ræðum aftur upphafið að sambandinu sem nú hefur enst í aldarfjórðung. Þeir segjast hafa verið farnir að búa saman nokkrum vikum eftir fyrsta fundinn.

„Það var strax augljóst að þetta var eitthvað sem var komið til að vera; að minnsta kosti til að prófa. Svo erum við enn að prófa,“ segir Felix.

„Ertu enn þá að prófa?“ spyr Baldur og þeir skellihlæja.

„Við áttum svo margt sameiginlegt og höfum aldrei átt í vandræðum með að njóta lífsins saman. Það er kannski stóra málið,“ segir Felix.

„Fyrsta kvöldið sem við hittumst sátum við fram á morgun að ræða saman. Og það var ekki aftur snúið,“ segir Baldur.

Baldur og Felix gera alltaf fimm ára plan. Á planinu …
Baldur og Felix gera alltaf fimm ára plan. Á planinu núna er að ferðast meira og vinna minna. mbl.is/Ásdís

„Það er svo magnað þegar maður finnur svona samhljóm,“ segir Felix.

Parið átti þá ung börn; Felix átti Guðmund sem þá var sex ára og Baldur Álfrúnu Perlu, fjögurra ára.

„Þau urðu perluvinir og upplifðu sig fljótt sem systkini,“ segir Felix og segir börnin hafa frá upphafi verið viku hjá mæðrum sínum og viku hjá feðrunum, sem var ekki mjög algengt á þeim tíma.

„Það leið ekki á löngu þar til dóttir okkar fór að spyrja hvenær við ætluðum að gifta okkur,“ segir Baldur og hlær.

„Ég man líka að við vorum ekki búnir að þekkjast lengi þegar við fórum í göngutúr í Heiðmörk og skipulögðum næstu fimm ár í lífi okkar. Svo höfum við haldið þessu áfram; við gerum alltaf fimm ára plan,“ segir Baldur.

Börnin í fótspor feðranna

Nú er sonurinn leikari og dóttirin stjórnmálafræðingur. Voru þetta samantekin ráð?

„Ég segi stundum að við unnum,“ segir Baldur í gríni.

Þeir þvertaka fyrir að hafa ýtt börnunum út í að feta í fótspor þeirra.
„Ég held að dóttir okkar hafi verið feimin að segja okkur að hún ætlaði í stjórnmálafræði,“ segir Baldur kíminn.

„Álfrún Perla tók sér ársfrí til að flakka um heiminn og finna sig og kom svo til mín og sagði; „pabbi, veistu að ég held ég fari bara í stjórnmálafræði.“ Ég svaraði: „Veistu Álfrún Perla, ég hefði getað sparað þér ár“,“ segir Felix og hlær.

Sonurinn Guðmundur tók háskólapróf frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og vinnur mikið við leikstjórn.

„Hann er mikið að leika, er í spuna og er að leikstýra,“ segir Felix og segir þau bæði á réttri hillu.

„Við höfum nóg að ræða við matarborðið og svo er tengdadóttirin, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, leikkona og tengdasonurinn, Árni Freyr Magnússon, sagnfræðingur,“ segir Baldur og viðurkennir að mikið sé talað um stjórnmál á heimilinu.

„Við þusum alveg rosalega mikið á morgnana,“ segir Felix og þeir hlæja dátt.

Felix segist vissulega vera pólítískur en lætur þó Baldur um að starfa og hrærast í stjórnmálum.

Hinn sanni Eurovision-aðdáandi

Felix hefur verið sjálfstætt starfandi listamaður allar götur síðan hann var í Greifunum sem ungur maður. Hann er um þessar mundir að leika í Mömmu Klikk í Gaflaraleikhúsinu, með útvarpsþátt hjá RÚV og er fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins.

„Ég er búinn að vinna í Eurovision meira og minna í áratug. Byrjaði sem PR-maður, varð svo kynnir og endaði sem fararstjóri. Þetta er ótrúlega gaman og heilmikil vinna. Fyrir mann eins og mig sem hefur gríðarlegan áhuga á listum og fjölmiðlum, þá eru þarna áhugamálin sameinuð. Þetta er stærsti sjónvarpsþáttur í heimi og þarna kemur margt frambærilegt fólk alls staðar að. Alþjóðasinninn og diplómatinn ég er þarna eins og fiskur í vatni,“ segir Felix og segist vinna í því að koma keppninni hingað heim einn góðan veðurdag. 

Ert þú Eurovision-aðdáandi Baldur?

„Sko. Ég er hinn sanni Eurovision-aðdáandi og var það þegar við hittumst! Hann var þá meira skeptískur á Eurovision en það var ég sem hélt Eurovision-partí og hafði gert lengi. En nú upp á síðkastið hef ég verið að grúska í hinu pólitíska og samfélagslega hlutverki Eurovision. Mér finnst það spennandi og hef sankað að mér alls kyns efni. Það kemur að því að ég geti skrifað um það fræðigrein,“ segir Baldur og blaðamanni verður að orði að honum takist alls staðar að troða stjórnmálum að.

„Ég reyni það sko!“ segir Baldur og Felix bætir við að vissulega sé pólitík í Eurovision, enda hafi söngvakeppnin upphaflega verið pólitískur friðarviðburður í stríðshrjáðri Evrópu.

„Þarna geta Evrópubúar sameinast eina kvöldstund um það sem þeir eiga sameiginlegt og ýtt til hliðar ágreiningsefnum,“ segir Baldur sem hyggst nota sína vitneskju um Eurovision í námskeiði um smáríki í Evrópu á næstunni, en eitt sérsviða Baldurs eru smáríki.

Að fara út fyrir Evrópu

Áhugamál Baldurs og Felix eru margvísleg og segjast þeir njóta þess að bjóða fjölskyldu og vinum heim í mat og jafnvel eru þá spiluð borðspil.

„Okkur finnst mjög gaman að halda boð og spila, þótt það hafi verið minna um það núna í Covid,“ segir Felix.

„Við förum saman í crossfit þrisvar í viku og svo hjólum við mikið. Það eru okkar gæðastundir,“ segir Baldur.

„Ferðalög eru mikið áhugamál; við viljum heimsækja sem flesta staði á jarðarkringlunni. Við höfum farið víða, til Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku,“ segir Felix.

Baldur segir þá hafa áttað sig á því fyrir nokkru að áfangastaðirnir voru yfirleitt önnur Evrópuríki. Þá var kominn tími á nýtt fimm ára plan.

„Þá gerðum við plan um að ferðast til tveggja ólíkra menningarheima tvisvar á ári í fimm ár. Það varð til þess að við fórum út fyrir Evrópu,“ segir Baldur.

Felix segist einnig horfa mikið á fótbolta og þá gjarnan með syninum Guðmundi.

„Ég er brjálaður KR-ingur og Liverpool-maður. Það er búið að vera dálítið erfitt síðustu vikur.“

Helgar í hellum

„Þegar Felix er í fótboltanum er ég að grafa út manngerða hella,“ segir Baldur.
Blaðamaður hváir.

Manngerða hella?

„Ég er frá bæ sem heitir Ægissíða í Rangárvallasýslu. Á bænum er að finna tólf manngerða hella sem munnmælasögur segja að séu jafnvel gerðir af Pöpum, írsku fólki sem nam hér land á undan norrænum mönnum. Afi minn sagði mér þessa sögu og afi hans honum. Fjölskyldan hefur undanfarin fimm ár verið að standsetja þessa hella, moka út úr þeim, búa til forskála og gera þá aðgengilega fyrir almenning með það í huga að varðveita þá. Það er tvö hundruð manngerða sandsteinshella að finna frá Vík og til Hveragerðis og eru þeir fullir af ristum og rúnum. Yfir þeim ríkir dulúð því það veit enginn hver gerði þá, í hvaða tilgangi eða hvenær,“ segir Baldur og segist eyða flestum helgum fyrir austan að bardúsa við hellana eða að leiðsegja fólki um þá.

„Við stofnuðum fyrirtækið Hellarnir við Hellu og opnuðum þá fyrir almenningi í janúar í fyrra. Rétt fyrir Covid,“ segir hann og segir nú opið alla laugardaga en í sumar verði opið alla daga.
Baldur segir Íslendinga hafa heldur betur verið duglega að heimsækja hellana í fyrrasumar og það verði opið líka núna um páskana.

Tekist á um línulega dagskrá

Það er farið að líða að kvöldmat í fallega gula húsinu við sjóinn. Laxinn bíður á borðinu en Guðmundur og kona hans Blær eru á leið í mat ásamt foreldrum Felix, Ingibjörgu og Bergi.
Eins gaman og það er að spjalla við þá Baldur og Felix, er kominn tími til að slá botninn í samtalið. Ljóst er að hjónin eru afar samstíga og sátt í sínu lífi og sambúðin farsæl.
Blaðamaður getur samt ekki stillt sig og spyr:

Er ekkert sem fer í taugarnar á ykkur við makann?

Þeir skellihlæja báðir.
Baldur segist þurfa að hugsa sig um.
„Við erum ekki alltaf alveg sammála um Eurovision-lögin,“ segir hann kíminn.

„Á einhvern máta er sambandið áreynslulaust. Okkur líður gríðarlega vel saman,“ segir Felix en bætir við eftir smá umhugsun:
„En það er rosalega pirrandi hvað Baldur er fastur í línulegri dagskrá í sjónvarpinu! Hann spyr: „Hvað er í sjónvarpinu í kvöld?“ Þá ranghvolfi ég í mér augunum og spyr: „Hvað viltu að sé í sjónvarpinu í kvöld?“,“ segir Felix og hlær.

„Þarna kom hann með það! Hann vill alltaf horfa á kvöldfréttir nokkrum mínútum eftir að þær hefjast! Það er bara svindl!“ segir Baldur.

„Um þetta er tekist á við kvöldverðarborðið.“

Ekkert betra en bros frá krílunum

Hvað er á fimm ára planinu núna?

„Að vera aðeins meira í Berlín og ferðast. Svo ætlum við að njóta lífsins með barnabörnunum okkar,“ segir Felix.

„Mig langar að vinna aðeins minna en ég dregst alltaf inn í meiri vinnu,“ segir Baldur og segja þeir kórónuveiruárið hafa farið vel með þá.

Fjölskyldan er afar samrýnd. Frá vinstri má sjá Álfrúnu Perlu …
Fjölskyldan er afar samrýnd. Frá vinstri má sjá Álfrúnu Perlu Baldurdóttur, Árna Frey Magnússon, Arnald Snæ Guðmundsson, Baldur og Felix, Eydísi Ylfu Árnadóttur, Þuríði Blæ Jóhannsdóttur og Guðmund Felixson. Ljósmynd/Eygló Gísladóttir

„Það var auðvitað minna að gera hjá mér, en ég lifi það alveg af,“ segir Felix.

„Barnabörnin tvö komu á síðasta ári, með þriggja vikna millibili. Við erum búnir að eiga gott ár í rauninni. Svo erum við Baldur líka mjög vanir að vera tveir að dúlla okkur en við erum ofsalega mikið saman. Þannig að það var ekki mikil breyting fyrir okkur. Við bjuggum til okkar búbblu, sem vorum við, börnin og barnabörnin, sem var bara dásamlegt,“ segir Felix.
„Við höfum alltaf eytt miklum tíma með börnunum en í fyrra þá vorum við bara alltaf saman. Hér var borðað saman annan hvern dag,“ segir Baldur.

Þeir eru að vonum mjög uppteknir af afahlutverkinu sem þeir segja engu líkt.

„Þetta er stórkostlegt. Þegar börnin okkar voru að fæðast var það eitthvað svo eðlilegt. En þetta er svo mikið kraftaverk; maður upplifir þetta á allt annan máta. Barnabörnin fagna manni svo innilega og það er ekkert fallegra en að fá bros frá þessum krílum,“ segir Felix og Baldur tekur undir það.

„Þetta er einhvern veginn alveg ný tilfinning sem maður vissi ekki að væri til. Flest annað í heiminum skiptir voða litlu máli,“ segir Baldur og Felix bætir við: „Við erum svo þakklátir að fá að vera svona mikið með barnabörnunum. Við erum bara afskaplega heppnir með okkar fólk.“

 Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert