Neyðarástand skapaðist við gosstöðvarnar

Bjarga þurfti fjölmörgum í gærkvöldi og í nótt sem reyndu …
Bjarga þurfti fjölmörgum í gærkvöldi og í nótt sem reyndu að komast að gosstöðvunum þrátt fyrir vonskuveður. Ljósmynd Slysavarnafélagið Landsbjörg

Neyðarástand myndaðist á svæðinu í kringum eldgosið í nótt og er enn óvíst um afdrif fólks úr fimm bílum sem ekki hafa verið sóttir. Bjarga þurfti fólki sem hafði örmagnast og flytja það af vettvangi með sjúkrabifreiðum. Farið var með 38 manns í fjöldahjálparstöð í Grindavík.

Talið er mögulegt að einn bílinn af þessum fimm hafi verið skilinn eftir en ekki er vitað hversu margt fólk þetta er sem enn er á svæðinu. Vonskuveður er á Reykjanesi.

Guðbrandur Örn Arnarson var í vettvangsstjórnstöð Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Grindavík í nótt. Hann segir að vont veður hafi ekki átt að koma fólki á óvart enda búið að gefa út ítrekaðar veðurviðvaranir í gær.

„Því miður var fólk ekki að fara mikið eftir þeim viðvörunum þannig að rétt eftir miðnætti var kominn mikill viðbúnaður af hálfu björgunarsveitarfólks,“ segir Guðbrandur. Alls tóku 142 björgunarsveitarmenn, allt frá Snæfellsnesi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Suðurlandi, þátt í aðgerðum segir Guðbrandur.

Um miðnætti var ljóst að vandinn var mikill því þá voru 140 bílar ósóttir, það er að fólk hafði ekki skilað sér í bílana. Formleg leit var gerð að fimm einstaklingum og fjórum hópum, tveimur sjö manna og tveimur fjögurra manna hópum, alls 27 einstaklingum. Þetta er fólk sem lenti í villum og hringt var í neyðarlínuna vegna þeirra, annaðhvort af aðstandendum þeirra eða fólkið hringdi sjálft. 

Þarna átti enginn að vera

Guðbrandur segir að hafi tekist að staðsetja megnið af fólkinu með því að senda því slóð sem það smellti á. Þannig var hægt að staðsetja það og senda björgunarsveitarhópa til að koma því í skjól. „Þarna átti enginn að vera,“ segir Guðbrandur og þrátt fyrir að einhverjir séu vel búnir þá séu því miður margir mjög illa búnir.

Hann segir að því miður sé fólk enn að koma á staðinn og þrátt fyrir ábendingar björgunarsveitarfólks þá þrjóskist sumir við. Það er slydda og hávaðarok á þessum slóðum og ekkert ferðaveður. „Þetta var grafalvarleg staða þarna uppi og það er ekki útséð um hvernig þetta endar,“ segir Guðbrandur en verið er að reyna að finna út hvaða einstaklingar eru á þeim bifreiðum sem enn eru ósóttar.  

Björgunarsveitir hafa verið að störfum í alla nótt og eru …
Björgunarsveitir hafa verið að störfum í alla nótt og eru enn að við gosstöðvarnar. Ljósmynd Slysavarnafélagið Landsbjörg

Hann segir að það hafi verið eins gott að jafn mikill kraftur var settur í verkefnið og gert var því neyðarástand hafi skapast á svæðinu þar sem hjálpa þurfti fjöldamörgum. „Ég get alveg fullyrt að ef björgunarsveitir hefðu ekki verið á staðnum þá hefði farið mun verr en fór,“ segir Guðbrandur en þrír sjúkrabílar voru þurftu að flytja fólk frá þeim stað þar sem var komið með það niður og eins frá fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn opnaði í Grindavík. Þar var tekið á móti 38 einstaklingum. Guðbrandur segir að skrá hafi þurft upplýsingar um þá þar sem vettvangsstjórnin var að reyna að ná utan um hverjir væru komnir niður. Mjög bagalegt sé þegar fólk sem kannski leitar til Neyðarlínunnar eftir aðstoð og fær hjálp við að komast niður lætur ekki vita af sér. Ekki hafi allir þeir 38 sem komu í fjöldahjálparmiðstöðina verið illa haldnir heldur frekar snúist um að skrá niður upplýsingar til þess að hægt hafi verið að halda utan um þann fjölda fólks sem var á þessum slóðum. 

„Það er í vinnslu að bæta aðgengið að gosstöðvunum en það tekur tíma,“ segir Guðbrandur og bendir fólki á að bíða eftir því og æða ekki af stað í vondu veðri. Eins að fara eftir tilmælum, til að mynda frá veðurfræðingum. 

Björgunarsveitafólk hefur vaktað gosstöðvarnar og gönguleiðirnar að þeim frá því snemma í gær og komið fólki til aðstoðar. Í gærkvöldi fjölgaði verkefnum björgunarsveitarmanna töluvert og hefur tugum einstaklinga verið komið til aðstoðar frá því síðdegis í gær. Meirihluti þeirra sem þurfa aðstoð eru örmagna eftir langa göngu, eitthvað hefur verið um smávægileg slys og nokkrir hafa villst af leið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert