Líkindi við 32 ára langt gos á Havaí

Kvikan er þunn og frumstæð í eldgosinu í Geldingadal.
Kvikan er þunn og frumstæð í eldgosinu í Geldingadal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, hallast að því eldgosið í Geldingadal í Fagradalsfjalli geti þróast í svonefnt dyngjugos. Slík gos geta getið af sér heilu fjöllin og vara oft árum saman.

Að sögn Þorvalds bendir tvennt til þess að eldgosið sé dyngjugos. 

Annars vegar er kvikan í gosinu frumstæð, þ.e. hún myndast við bræðslu á möttlinum á um það bil 30-40 km dýpi og rís síðan upp á 17-20 km dýpi, þar sem hún safnast fyrir í eins konar kvikuþró. Hún er mjög heit og þunnfljótandi.

Hins vegar er streymið mjög stöðugt frá upphafi og hefur raunar ekkert breyst frá því að gosið hófst, að sögn Þorvalds. Jafnvægi virðist vera á milli uppstreymis kviku og útflæðis úr gígnum og það bendir til þess að breyting sé ekki handan við hornið.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þráinsskjaldarhraun á Reykjanesi er dæmi um hraunskjöld sem myndaðist í dyngjugosi og sá stóri skjöldur nær alveg frá Vogasvæðinu og út að Afstapahrauni. 22 önnur dyngjugos, eða hraunskjaldargos eins og þau eru einnig nefnd, hafa orðið á skaganum.

„Gott dæmi um slíka uppsetningu á kerfinu er gosið sem varð í Kilauea á Havaí, sem hófst 1983, náði stöðugu streymi upp á 5-10 rúmmetra á sekúndu árið 1986 og síðan lauk því núna 2018. Það eru 32 ár og upp eru komnir fjórir rúmkílómetrar af hrauni,“ segir Þorvaldur. 

Fólk fylgist með eldgosinu í Geldingadal í Fagradalsfjalli.
Fólk fylgist með eldgosinu í Geldingadal í Fagradalsfjalli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kannski nægur tími til að fara að skoða gosið

Spurður hvort gosið í Geldingadal gæti varað með sama hætti í 32 ár segir Þorvaldur: „Já, eða jafnvel lengur. Það fer bara eftir því hvað er mikið í tankinum niðri.“

Þorvaldur segir að ef veðrið sé hagstætt um helgina sé kjörið að skella sér í göngu upp að gosi. „Það liggur kannski ekki beint neitt svakalega á,“ segir hann í ljósi þess möguleika að von sé á gosi næstu ár. 

Enn er þó ekki hægt að slá því föstu að um sé að ræða dyngjugos „Ég hallast meira og meira að því,“ segir Þorvaldur. „Ég sé enga breytingu í flæðinu. Það er erfitt að segja til um það með einhverri vissu núna en ég held að aðstæðurnar séu þannig að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert