Segir háalvarlegt að setja Ísland á bannlista

Sigríður Á. Andersen er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Sigríður Á. Andersen er formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Evrópusambandið er búið að setja Ísland á lista meðal landa sem bannað er að flytja bóluefni til. Að vísu hefur framkvæmdastjórnin sent tilkynningu um málið til íslenskra stjórnvalda um að þetta muni ekki hafa áhrif á dreifingu bóluefnanna í þeim farvegi sem þau eru.“

Þetta segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

„En þetta er hins vegar háalvarlegt mál að Ísland sé sett þarna, og stenst auðvitað engan veginn í ljósi EES-samstarfsins. Evrópusambandið vill greinilega stemma stigu við bóluefnaútflutningi Bretlands, og ætlar að hefna sín á þeim.“

Sitja uppi með mikið magn bóluefnis

Sigríður segir að með þessu vilji sambandið koma í veg fyrir að bóluefni úr verksmiðjum, sem staðsettar er í Evrópusambandslöndum, sé flutt til Bretlands.

„Málið er samt að það eru Bretar og Bandaríkjamenn sem eiga þessar verksmiðjur, ekki Evrópusambandslöndin sem hýsa þær.“

Hún segir ESB líka hafa gripið til þessara aðgerða af ótta við að ekki verði hægt að tryggja nægt bóluefni fyrir þjóðirnar innan sambandsins.

„Það er frekar kaldhæðnislegt því Evrópusambandslöndin og framkvæmdastjórnin hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr trúverðugleika á bólusetningum,“ segir Sigríður. „Svo mörg Evrópusambandsríki sitja núna uppi með mjög mikið magn af bóluefni, sem stundum þarf að farga þar sem ekki er hægt að koma því öllu út.“

Ísland verði tekið út úr tilkynningunni hið fyrsta

Sigríður segist vera agndofa á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar.

„Það eru mjög misvísandi skilaboð að gefa út svona yfirlýsingu og senda svo prívatnótu til utanríkisráðuneytisins sem segir að þetta eigi ekki við um Ísland“.

„Ísland hefur kannski ekki ástæðu til að blanda sér mikið í þessa baráttu ESB og Bretlands, en við erum óhjákvæmilega dregin inn í málið með þessari ákvörðun í morgun,“ segir hún.

„Íslensk stjórnvöld eiga að mínu mati að krefast þess að Ísland verði tekið út úr þessari tilkynningu hið fyrsta. Og framkvæmdastjórnin ætti í raun að biðjast afsökunar á þessu,“ segir Sigríður enn fremur, en hún er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

„Þetta er allt saman algjör þvæla, en svona er þessi umræða orðin. Og viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar eru gerræðisleg og óyfirveguð. Þau eru í raun miklu verri en veiran sjálf nokkurn tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert