Þurfum að taka slaginn eina ferðina enn

„Við höfum alltaf gert þetta saman og við höfum alltaf …
„Við höfum alltaf gert þetta saman og við höfum alltaf haft ákveðin skilning á því að fólk þurfi tíma til þess að aðlagast nýjum veruleika,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Arnþór

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur þær aðgerðir sem gripið var til í dag vegna kórónuveirufaraldursins algjörlega nauðsynlegar. Hún vonast til þess að harðar aðgerðir í þrjár vikur dugi til þess að ná utan um samfélagslegt smit.

„Ég er mjög ánægð með það að við skulum hafa haft kjark og festu til þess að stíga svona hratt inn,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.

Hún og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræddu saman í gækvöldi og undirbjuggu fundarhöld vegna komandi aðgerða. Þær taka gildi á miðnætti og felast í takmörkunum á ýmiss konar starfsemi sem og fjöldatakmörkunum sem miðast við tíu manns.

„Það er sannarlega mín von að þessar þrjár vikur dugi til þess að ná utan um þetta smit sem við erum að horfast í augu við núna. þess vegna erum við að stíga svona fast til jarðar, vegna þess að við viljum trúa því að við náum markmiðum okkar á þessum þremur vikum,“ segir Svandís spurð hvort vonir stæðu til þess að með hörðum aðgerðum nú tækist að bjarga sumrinu.

Landspítali fær aðra skammta í staðinn

Faraldurinn hefur farið vaxandi innanlands síðan um helgina og er breska afbrigði veirunnar farið að breiðast út. Svandís jánkar því að staðan nú sýni mikilvægi þess að bólusetning gangi hratt og vel fyrir sig. Hún tilkynnti í dag að bóluefni AstraZeneca yrði aftur tekið í notkun hér á landi fyrir 70 ára og eldri. Líklega verður bóluefnið einnig notað fyrir 65 ára og eldri þegar að þeim aldurshópi kemur enda hefur ráðgjafahópur Evrópusambandsins komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af notkun bóluefnisins í þeim aldurshópi.

„Þannig að þetta gerir það að verkum að í stað þess að nýta AstraZeneca fyrir framlínustarfsfólk verður það notað fyrir eldra fólk og innkallanir,“ segir Svandís.

Í stað bóluefnaskammta AstraZeneca sem fyrirhugað var að nýttir yrðu í bólusetningu innan Landspítala fær spítalinn skammta af öðrum bóluefnum.   

Skilningur á því að fólk þurfi að aðlagast

„Staðan núna er náttúrulega önnur en hún var fyrir ári síðan. Þá óraði okkur ekki einu sinni fyrir því að við værum með bóluefni yfir höfuð en nú erum við með bóluefni og erum að byrja að bólusetja samkvæmt bólusetningaráætlun þannig að það er ákveðinn stuðningur samfara því að við þurfum að taka þennan slag eina ferðina enn,“ segir Svandís.

Aðspurð segir hún ekki útlit fyrir að Ísland muni samþykkja einhver bóluefni aukalega við þau sem nú þegar hafa verið samþykkt á undan Lyfjastofnun Evrópu.

Aðgerðirnar sem taka gildi á miðnætti bera brátt að. Spurð hvort hart verði tekið á því ef fólk misstígur sig til að byrja með segir hún:

„Við höfum alltaf gert þetta saman og við höfum alltaf haft ákveðin skilning á því að fólk þurfi tíma til þess að aðlagast nýjum veruleika en við höfum komist hingað með því að standa saman og við munum komast í gegnum þessar þrjár vikur þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert