Tíu manna fjöldatakmörkun frá miðnætti

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir á fundinum í Hörpu.
Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir á fundinum í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginreglan hér á landi frá miðnætti um allt land. Þetta kom fram í máli heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi.

Börn fædd 2015 og síðar verða undanskilin. Öllum skólum nema leikskólum verður lokað þar til páskafrí tekur við. 

Þetta fyrirkomulag mun gilda í þrjár vikur. 

Líkamsræktarstöðvar og sundlaugar munu loka ásamt leikhúsum, kvikmyndahúsum, skemmtistöðum, börum og spilastöðum. 

Trú- og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. 

Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna sem krefjast meiri nálægðar en tveggja metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar verða óheimilar. Ökunám og flugnám með kennara verður óheimilt.

Veitingastaðir mega hafa opið til klukkan 22 á kvöldin með að hámarki 20 gestum í hverju rými, sem allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í númeruð sæti. Heimilt er að taka á móti gestum til klukkan 21.  

Verslanir mega taka á móti 5 einstaklingum á hverja 10 fermetra, að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir.

Starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa og sambærileg starfsemi verður áfram heimil.

Söfn og aðrir opinberir staðir mega taka á móti að hámarki 10 einstaklingum.

Svandís Svavarsdóttir sagði smitin að undanförnu vera af völdum breska afbrigðis veirunnar sem sé mun meira smitandi en önnur afbrigði. 

Tilkynning heilbrigðisráðuneytisins vegna hertra sóttvarnaaðgerða

Stíga þurfi fast til jarðar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sinni ræðu að stíga þurfi mjög fast til jarðar til að vinna bug á útbreiðslu veirunnar. 

„Ég veit að það mun hafa mikil áhrif á okkur ölll," sagði Katrín. Hún bætti við að margt væri framundan hjá mörgum til dæmis um páskana. Talaði hún um að leggja þurfi ofurkapp á að ná tökum á útbreiðslu breska afbrigðis veirunnar. 

Katrín talaði um að við höfum átt í baráttu við kórónuveiruna í heilt ár og að heilt yfir hafi hún gengið mjög vel bæði vegna sóttvarnaaðgerða og samstöðu almennings.

„Við erum að sjá fjölgun smita. Þetta leggst ekki síður á börn og unglinga heldur en eldra fólk, sem er breyting," sagði Katrín. 

„Við erum á allt öðrum stað en fyrir ári. Við þekkjum þennan óvin miklu betur en áður. Einnig hafa verið þróuð bóluefni,“ sagði hún.

„Þó að það sem við boðum í dag séu hertar ráðstafanir innanlands höfum við samt komið fólki í skjól,“ bætti hún við og sagði að við sjáum fyrir endann á baráttunni. Eftir því sem bólusetningum vindur hraðar fram muni baráttan ganga auðveldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert