Áhöfnin rólfær

Reyðarfjörður. Taurus Confidence er í álvershöfninni við Mjóeyri.
Reyðarfjörður. Taurus Confidence er í álvershöfninni við Mjóeyri. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Enn liggur ekki fyrir hve langa viðveru súrálsskipið Taurus Confidence mun hafa í Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði, en 10 af 19 í áhöfn þess eru veikir af Covid-19. Aðgerðastjórn og umdæmislæknir sóttvarna hafa í samvinnu við umboðsmann útgerðarinnar og skipstjórann gefið leiðbeiningar um hvernig sóttvörnum skuli háttað. Ástandið um borð er sagt stöðugt, fleiri hafa ekki veikst og greindir eru rólfærir. Eftirlit er samkvæmt fyrirliggjandi vinnureglum frá Covid-deildum Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Sýnataka og annað tengt þessu hefur gengið vel og aðgerðastjórn telur ekki hættu á að smitið dreifi sér, skv. upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi.

„Áhöfnin verður um borð í skipinu uns heilbrigðisyfirvöld telja skipverja orðna ferðafæra og geta haldið til hafs á ný,“ segir Garðar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Nesskipa. Fyrirtækið sér um þjónustu hér á landið við skipið, sem kom til Reyðarfjarðar. Skipið lagði í haf frá Sao Luis í Brasilíu 15. mars og var siglt beint hingað til lands, án viðkomu í nokkurri höfn. Ætla verður því að sjómennirnir sýktu séu allir með brasilíska afbrigðið af kórónuveirunni. Enn liggur ekki fyrir hvert skipið fari eftir losun á Reyðarfirði.

„Umboðsþjónusta við erlend skip getur verið margþætt,“ segir Garðar. „Í fyrsta lagi eru þetta samskipti við til dæmis útgerð og leigutaka skips, farmeiganda, hafnaryfirvöld á hverjum stað, Landhelgisgæsluna og tollinn ásamt skjalagerð ýmiss konar. Einnig þarf að útvega kost, olíu, vatn og slíkt. Stundum þurfa skipverjar líka persónulega þjónustu og núna vegna Covid-19 hafa samskipti við heilbrigðisyfirvöld bæst við okkar þátt. Eins og staðan er núna er ástand skipverja stöðugt og hefur ekki versnað milli daga. Því verður vonandi ekki svo langt í að Taurus Confidence leggi aftur í haf,“ segir Garðar. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert