Búa sig undir mögulega fjölgun smita

„Það skapast náttúrulega langvarandi álag af þessu en við erum …
„Það skapast náttúrulega langvarandi álag af þessu en við erum bara vön því að bregðast við því sem að höndum ber og gerum það,“ segir Runólfur. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

88 einstaklingar, 71 fullorðinn og 17 börn, eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar Landspítala og Barnaspítala Hringsins vegna Covid-19-sýkingar. Alvarleg veikindi eru varla til staðar innan hópsins og er aðeins einn hinna smituðu merktur gulur, og því meira veikur en hinir 87. Covid-19-göngudeildin býr sig nú undir mögulega fjölgun smita í samfélaginu. 

Þetta segir Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-19-göngudeildar Landspítala.

Undanfarið hefur verið töluvert um smit á meðal barna og hafa heilu árgangarnir þurft að leita í sóttkví vegna þeirra.

„Það er mjög hætt við því, þegar börn smitast, að foreldrarnir smitist líka,“ segir Runólfur.

Eiginlega allir með breska afbrigðið

Flestir þeirra sem hafa smitast af kórónuveirunni á síðustu dögum og vikum eru með breska afbrigði veirunnar sem er meira smitandi en önnur afbrigði sem hafa sést hér á landi. Þá virðist afbrigðið einnig valda alvarlegri veikindum.

„Það eru eiginlega allir með breska afbrigðið núna sem hafa smitast á síðustu dögum og vikum. Það má ekki gleyma því að við höfum haldið starfseminni á Covid-göngudeildinni gangandi allan tímann vegna þess að þeir einstaklingar sem hafa greinst á landamærum hafa þá farið í umsjá hennar,“ segir Runólfur. Áður en fjórða bylgja fór af stað voru 20-30 manns í eftirliti göngudeildarinnar en í takt við fjölgun smita í samfélaginu hefur þeim fjölgað sem eru í eftirliti deildarinnar.

Allir nema einn grænir

Hvernig líður þeim sem eru í eftirliti hjá ykkur?

„Staðan er bara býsna góð hvað það snertir núna. Við erum með þetta litakóðunarkerfi sem var oft talað um í fyrri bylgjum; grænan, gulan og rauðan lit eftir alvarleika veikindanna. Grænn er þá lítil einkenni en rauð mjög alvarleg veikindi. Það er bara einn merktur gulur núna og þetta er allt meira og minna svona frekar væg einkenni, það er að segja ekki alvarleg veikindi,“ segir Runólfur.  

„Þótt þetta sé ekki mikið miðað við það sem var í fyrstu og þriðju bylgju erum við samt að auka viðbragðið, lengja þjónustutíma og fjölga starfsfólki og svo framvegis og búa okkur undir það ef fleiri tilfelli koma upp.“

Vön því að bregðast við því sem að höndum ber

Spurður hvort deildin sé tilbúin í að takast á við það ef smitum fer að fjölga verulega segir Runólfur að hún sé það. 

„Það skapast náttúrlega langvarandi álag af þessu en við erum bara vön því að bregðast við því sem að höndum ber og gerum það.“

Tekið skal fram að til viðbótar við hina 88 sem eru í eftirliti Covid-19-göngudeildarinnar er einn einstaklingur inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19 og má því telja að veikindi hans séu alvarleg. Viðkomandi er ekki á gjörgæslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina