Fylgið fyrirmælum á gossvæðinu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitthvað hefur verið um smá óhöpp á gönguleiðinni að eldgosinu í Geldingadal í nótt og er fólk beðið um að fara varlega og eins að fylgja fyrirmælum viðbragðsaðila þar sem gasmengun liggur yfir stikuðu leiðinni. Gríðarlegur fjöldi var á svæðinu í gær og er von á að margir leggi leið sína þangað í dag.

Vaxandi norðan- og norðaustanátt á gossvæðinu, 13-18 m/s með hríðarveðri undir hádegi og gasmengun berst því einkum til suðurs og suðvesturs frá gosstöðvunum.

Hjálmar Hallgrímsson, sem situr í vettvangsstjórn almannavarna í Grindavík fyrir hönd lögreglunnar á Suðurnesjum, segir að vindáttin sé úr norðaustri og liggi núna yfir stikuðu gönguleiðina sem er suður af eldgosinu í Geldingadal.

Hann segir að ekki sé hægt að leggja til að fólk fari ekki að eldgosinu en það eru fleiri leiðir að gosinu heldur en sú stikaða og því spurning um hvort ekki þurfi að færa stikurnar sem eru nálægt gosstaðnum. „Þetta er bara ákvörðun sem verður að taka með deginum,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is. 

Hann segir að það sé töluverður fjöldi á leiðinni að eldgosinu. „Það urðu tvö óhöpp í nótt sem mátti rekja til hálku á gönguleiðinni og fyllsta ástæða til að biðja fólk um að fara varlega enda gönguleiðin hál,“ segir Hjálmar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður út í sóttvarnir á þessum slóðum segir Hjálmar að það sé ekkert sem vettvangsstjórnin geti gert í heldur sé það í höndum sóttvarnalæknis að gefa út reglur. „Menn hafa minni áhyggjur af Covid undir beru lofti og ef það er dreifing á fólki.

„Þannig að þetta ætti að vera í lagi. En fólk á auðvitað ekki að safnast saman þó svo að það sé undir berum himni. Við megum búast við miklum fjölda á svæðið,“ segir Hjálmar sem segir mikilvægt að fólk virði tveggja metra regluna. 

Fjölmargt björgunarsveitarfólk er á gosstöðvunum og vaktar þær allan sólarhringinn. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að þetta sé mannaflsfrekt verkefni; að sinna gæslu og öðrum verkefnum við gosstöðvarnar en þúsundir lögðu leið sína að eldgosinu í gær. Þegar mest var voru sennilega yfir eitt þúsund manns á sama tíma á svæðinu í gærkvöldi. 

Björgunarsveitarfólk er á vakt við gosstöðvarnar allan sólarhringinn.
Björgunarsveitarfólk er á vakt við gosstöðvarnar allan sólarhringinn. Ljósmynd/Hreiðar Júlíusson

„Sem betur fer hafa engin stór slys orðið heldur bara smáslys sem gerist reglulega á fjölförnum gönguleiðum eins og Esjunni,“ segir hann og bætir við að óhöppin við gosstöðvarnar séu ekki mörg ef miðað er við hversu mikill fjöldi er þarna á ferðinni. 

Hjálmar á von á því að fjöldi fólks muni fara á gosslóðir í dag enda búið að loka skólum og því viðbúið að margar fjölskyldur fari að skoða eldgosið. Hjálmar segir að björgunarsveitarfólk fylgist vel með og það er með gasmæla. Davíð Már tekur undir þetta og segir að það séu alltaf lögreglumenn og björgunarsveitarfólk á staðnum sem er fljótt að bregðast við ef þörf er á. Hann segir að mögulega verði farið að bæta fjarskipti á svæðinu en getur ekki sagt til um hvort það verður í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert