Kanna möguleikann á að semja beint við Rússa

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi í Hörpu í gær þar …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi í Hörpu í gær þar sem hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins voru kynntar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það var rétt ákvörðun að fara í samflot með Evrópusambandinu varðandi öflun bóluefnis gegn Covid-19 þó afhending hafi gengið hægar en fólk hafi vonað. Ríkisstjórnin hefur verið með alla anga úti við að tryggja sér bóluefni með öðrum leiðum.

Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunútvarpinu á Rás 2 þar sem rætt var við hana í kjölfarið á því að hertar aðgerðir tóku gildi á miðnætti.

„Við leituðum eftir tilraunaverkefni með Pfizer. Heilbrigðisráðuneytið hefur kannað möguleika á að tryggja sér Spútnik en það hangir á því að efnið fá markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu. Það er ekki þannig að við kaupum bóluefni sem uppfyllir ekki öll skilyrði,“ sagði Katrín.

Katrín var spurð hvort stjórnvöld væru að reyna að semja beint við Rússa um afhendingu bóluefnisins Spútnik:

„Við höfum kannað möguleikann að semja beint við þá en það er samt háð því að efnið fá markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu,“ sagði forsætisráðherra.

Hún sagði enn fremur að verið sé að skoða öll möguleg efni og alla möguleika. Að hennar sögn stenst bóluefnaáætlun stjórnvalda, þar sem fram kemur að meirihluti þjóðarinnar verði bólusettur í júlí, fyrir utan smá töf hjá AstraZeneca.

Krafa um að reglugerð verði breytt

Katrín sagði boðaðar út­flutn­ings­höml­ur á vör­um frá Evr­ópu­sam­band­inu til EFTA-ríkj­anna ganga í ber­högg við EES-samn­ing­inn. Hún sagði fréttir gærdagsins varðandi  ákvörðun Evr­ópu­sam­bands­ins um að banna út­flutn­ing bólu­efna gegn Covid-19 frá ríkj­um sam­bands­ins til landa utan þess væntanlega eiga rætur að rekja til togstreitu milli ESB og Breta.

Hún hafði strax samband við Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, þar sem skýr skilaboð fengust um að reglugerðin hefði ekki nein áhrif á Ísland.

„Við gerum hins vegar kröfu um að þessari reglugerð verði breytt, enda stenst hún ekki EES-samninginn,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert