Ný leið ögn lengri og erfiðari en laus við gasmengun

Mikil umferð hefur verið á Suðurstrandavegi þar sem fólk hefur …
Mikil umferð hefur verið á Suðurstrandavegi þar sem fólk hefur lagt bílum hér og þar við veginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í nótt fór björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík í tvo sjúkraflutninga inn að gossvæðinu vegna fólks sem hafði slasast á göngu. Sveitin greinir frá því í facebookfærslu að þúsundir manna hafi lagt leið sína inn á gossvæðið í gær og verður að segja að vel hafi gengið miðað við fjölda.

„Við ásamt öðrum björgunarsveitum erum til taks á svæðinu einmitt til þess að bregðast við þegar svona tilfelli koma upp og því fengu skjólstæðingar okkar skjóta og góða þjónustu. Í dag vinnur sveitin að því að stika aukagönguleið vegna gasmengunar sem liggur yfir í dag og á morgun. Aukaleiðin er ögn lengri og erfiðari en er alveg laus við hættulega gasmengun frá gossvæðinu,“ segir í færslunni.

Björgunarsveitarfólk á gosstað.
Björgunarsveitarfólk á gosstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enn og aftur ítrekum við að fólk skuli vera vel útbúið í gönguferðum á gossvæðið. Fólk þarf að gera ráð fyrir að eldgosið sé uppi á fjalli og þar eru aðstæður mun meira krefjandi en í byggð. Til dæmis eru brattar og lausar brekkur á gönguleiðinni og mjög mikil vindkæling. Nauðsynlegt er að vera vel klæddur, með höfuðljós og helst göngustafi,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert