Risastór tískusýning tekin upp í Reynisfjöru

Reynisfjara. Um 250 manns voru í tökuliði á vegum franska …
Reynisfjara. Um 250 manns voru í tökuliði á vegum franska tískurisans Yves Saint Laurent, innlendir sem erlendir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikil leynd hefur hvílt yfir upptökum á stórri tískusýningu franska tískurisans Yves Saint Laurent sem fram fór hér á landi í vikunni. Um 250 manns komu að tökunum, bæði Íslendingar og fólk sem kom hingað til lands á vegum tískuhússins.

Erfitt hefur reynst fyrir stóru tískuhúsin úti í heimi að kynna nýjar tískulínar sínar á tímum kórónuveirunnar. Hefðbundnar tískusýningar ganga illa upp og af þeim sökum hefur þurft að finna nýjar leiðir. Ein þeirra virðist vera að færa tískupallana út í íslenska náttúru eins og Yves Saint Laurent gerði. Yves Saint Laurent er eitt stærsta tískumerki í heimi og framleiðir bæði fatnað og fylgihluti og húð- og snyrtivörur.

Um eitt hundrað manns komu hingað til lands á vegum tískuhússins og dvöldu hér í tvær vikur. Um var að ræða fyrirsætur, yfirmenn tískuhússins, tökulið, förðunarfræðinga, fólk sem sá um búninga og svo mætti áfram telja. Þau nutu liðsinnis um 150 Íslendinga þegar mest lét. Heimildum blaðsins ber ekki saman um fjölda tökudaga, þeir voru sagðir vera allt frá þremur og upp í sex talsins.

Erlendu gestirnir fóru í sóttkví við komuna hingað og var þeim svo dreift á fjölmörg hótel úti á landi. Tökur fóru meðal annars fram í Herdísarvík, við Skógafoss, í Reynisfjöru og við Hjörleifshöfða. Samkvæmt upplýsingum blaðsins þurfti að breyta áformum um tökur á Reykjanesi þegar fréttir bárust af yfirvofandi eldgosi þar.

Umhverfisstofnun veitti kvikmyndafyrirtækinu Pegasus leyfi til kvikmyndataka og aksturs utan vega á nokkrum stöðum vegna þessa verkefnis. Í leyfisbréfi frá stofnuninni kemur fram að tökur fóru fram í Eldhrauni í Herdísarvík. Þar voru mottur lagðar yfir mosa til að hlífa honum. Ráðgert var að mynda á tveimur stöðum við Kleifarvatn og setja upp leikmyndir í fjöruborðinu. Við Skógafoss var ráðgert að tökur færu fram á áreyrum framan við fossinn. Áætlað var að færa til grjót. Til að framleiða rafmagn fyrir tækjabúnað óskaði kvikmyndafyrirtækið eftir leyfi til að fá að keyra sjö tonna trukk með rafstöð inn á áreyrarnar sem yrði staðsettur þar meðan tökur færu fram. Þeirri ósk var hafnað. Þess í stað var ákveðið að keyra með tvær 100 kg rafstöðvar á sexhjólum inn á áreyrarnar.

Leyfi var veitt fyrir drónamyndatökum og við Herdísarvík, Kleifarvatn og Skógafoss fóru einnig fram ljósmyndatökur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert