Dagur fagnar dómi Landsréttar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að mál sem Reykjavík Development tapaði í Landsrétti í dag vegna Airbnb-íbúða sé algjört tímamótamál. Dómurinn staðfesti rétt Reykjavíkur til að stýra skipulagi, þar á meðal hvar gistiþjónusta megi vera.

„Reykjavik hefur verið í nánu samstarfi við aðrar ferðamannaborgir á undanförnum árum og hefur verið fremst í flokki við að stýra álagi, s.s. af rútum og gistingu, í gegnum skipulag. Þetta prófmál hefur því umtalsverða þýðingu, jafnvel út fyrir landsteinanna,“ skrifar Dagur á facebooksíðu sína.

Hann bætir við að með þessu sé staðfest að borgin megi grípa inn í og bregðast við þegar álag af gististöðum og ferðaþjónustu eða uppbygging tengd þeim sé komin úr hófi og farin að hafa neikvæð áhrif á borgarbúa eða fjölbreytni í borgarlífinu.

„Ég er sannfærður að í því felist mikilvægir langtímahagsmunir fyrir okkur öll - líka ferðaþjónustuna - og styrkir Reykjavík í að halda í sérkenni borgarinnar og dreifa álagi þegar ferðaþjónustan tekur aftur við sér, öllum í hag. Virkileg mikilvæg og ánægjuleg niðurstaða,“ skrifar borgarstjóri.

mbl.is