Fólk noti grímur hjá gosinu

Margir hafa lagt leið sína að eldgosinu í Geldingadölum.
Margir hafa lagt leið sína að eldgosinu í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna, segir að það sé mikilvægt að gera ráð fyrir Covid-19 þegar farið er að eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli. Hann biður fólk endilega að hafa með sér grímu á staðinn.

Sóttvarnalæknir hefur sagt frá því að smitið sem greindist utan sóttkvíar í dag tengist gosstaðnum að því leyti að hinn smitaði fór þangað í vikunni. Óljóst er hvort hann hafi smitast þar en hann var þar í hópi fólks.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur telur ekki unnt að koma í veg fyrir ferðir á gosstað. „Það er bara óhjákvæmilegt miðað við allt. Þetta er náttúrulega líka utandyra og það er vel rúmt um fólk en eins og verða vill er fólk að hópast saman. Það þarf að vera vakandi fyrir því að gera það ekki,“ segir Rögnvaldur.

Þar sem ekki verður hjá því hópamyndun komist og ekki er hægt að tryggja tveggja metra reglu, segir Rögnvaldur að fólk skuli bera grímu. Þá megi ekki gleyma ruslapokum fyrir grímurnar, enda er ljóst að gríman er fljót að verða illa leikin ef maður gengur með hana upp.

Mikil aðsókn

Talið er að hátt í 6.000 manns hafi verið í Fagradalsfjalli á miðvikudag. Fjöldi þeirra snerti sama öryggisreipi í fjallinu en í því máli er unnið að því að minnka smithættu með öðrum lausnum.

Veðrið á gosstað er sæmilegt í dag en kólnar verulega með kvöldinu. Síðdegis á morgun er spáð stormi og appelsínugul viðvörun verður í gildi. Þá er mjög hættulegt að reyna að fara að gosinu. Veðrið skánar svo á sunnudag.

Eldgos í Geldingadal.
Eldgos í Geldingadal. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert