„Þetta reynir gríðarlega mikið á fólk“

Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn segir að Rauðagerðismálið hafi tekið mjög á …
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn segir að Rauðagerðismálið hafi tekið mjög á starfsfólk lögregluembættisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra, segir að morðið í Rauðagerði og rannsókn málsins í kjölfarið, hafi tekið mjög á starfsfólk lögreglu. Hann segir að málið sé ekki að fullu upplýst og að rannsóknin sé enn í gangi. Játning liggur nú fyrir í málinu og segir Margeir að hún komi heim og saman við gögn og kenningar lögreglu.

Margeir hefur áður sagt að almenningur þurfi ekki að óttast þau skipulögðu glæpaöfl sem eru að verki í málum á borð við Rauðagerðismálið. Hann segir hins vegar að grípa hafi þurft til aðgerða vegna þess að skuggalegir aðilar áreittu starfsfólk embættisins. Spurður út í þetta segir Margeir:

„Við erum alltaf á varðbergi með það og fylgjumst með hverju öðru.. Ef við verðum þess áskynja að svo er þá grípum við til viðeigandi ráðstafana, því ef við erum out þá veit ég ekki hvernig þetta myndi fara. Við grípum þá strax til og það hefur verið gert. Við höfum skynjað það að það hefur verið, til að mynda í kringum þetta mál, að starfsmönnum embættisins hafi verið fylgt eftir og svona verið að láta vita að þeir [glæpamenn] séu til. Það er ekkert launungamál.“

Hefur lögreglumönnum verið hótað?

„Ég hef ekki orðið var við það í tengslum við þessa rannsókn, nei.“

Margeir segir jafnframt að Rauðagerðismálið hafi tekið mjög á starfsfólk sitt. Ekki aðeins vegna þess hve óhugnalegur glæpur var þar framinn, heldur einnig vegna aukins álags síðustu vikur og mánuði.

„Þetta reynir gríðarlega mikið á fólk,“ segir Margeir.

„Þetta hefur kallað á gríðarlega mikla viðveru. Allir þurfa að koma um borð.“

Blaðamannafundur vegna manndráps í Rauðagerði. Halla Bergþóra Björnsdóttir, Margeir Sveinsson …
Blaðamannafundur vegna manndráps í Rauðagerði. Halla Bergþóra Björnsdóttir, Margeir Sveinsson og Hulda Elsa Björgvinsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Játningin gild en málið ekki upplýst

Eins og fyrr segir er rannsókn Rauðagerðismálsins enn í fullum gangi – og hún gengur vel að sögn Margeirs. Hann segir að skipta megi málum sem þessum og rannsóknum á þeim, í þrjú stig.

„Við teljum málið ekki vera upplýst. Við erum að skoða þennan möguleika hvort þetta hafi verið með einhverjum skipulögðum hætti. Við getum skipt þessu niður í þrjú stig: Það er planið að framkvæma verkið og hvernig það er gert, númer tvö er að framkvæma verkið og númer þrjú er hvert planið er eftirá. Við teljum okkur hafa upplýst um stig númer tvö en við erum ennþá að rannsaka planið fyrir og eftir, skipulagið fyrir og eftir morðið.“

Armando Beqirai, var myrtur fyrir utan heimili sitt 13. febrúar …
Armando Beqirai, var myrtur fyrir utan heimili sitt 13. febrúar síðastliðinn. Hann skilur eftir sig konu og ungt barn. mbl.is

Hann segir að játning eins þeirra grunuðu sé tekin gild, vegna þess að hún passar við kenningar lögreglu í málinu. Sá sem játaði er Albani, landi þess sem var myrtur, Arm­ando Bequiri.

Það tíðkast í málum sem þessum, segir Margeir, að aðili sem er ótengdur málinu eða einhver annar málsaðila, sem ekki framdi ákveðinn verknað, sé látinn taka á sig sökina. Eins og kom fram á blaðamannafundi um málið og játningu Albanans í dag, tíðkast þetta innan skipulagðra glæpasamtaka.

„Játningin sem er í málinu, hún passar við gögn og kenningar lögreglu í málinu um hvernig atburðarásin átti sér stað. Það sem við þekkjum í málum, hér á landi líka, er að það hefur komið upp sú staða að einhverjum óviðkomandi aðila eða einhverjum öðrum aðila sem tengist málinu er gert að taka verknaði á sig. Það óttuðumst við mjög að myndi gerast af því við erum að eiga við allt annað umhverfi en einhverja innbrotsþjófa, það er miklu meira skipulag í kringum það sem við erum að sjá og höfum grun um að sé. Þess vegna viljum við ekki vera að láta of mikið frá okkur af upplýsingum.“

Hér má sjá upptöku af áðurnefndum upplýsingafundi lögreglunnar vegna Rauðagerðismálsins.

mbl.is