Ummæli Helga brot á siðareglum

Helgi Seljan í Silfrinu.
Helgi Seljan í Silfrinu. Skjáskot/RÚV

Siðanefnd RÚV hefur úrskurðað að nokkur ummæli Helga Seljan, eins stjórnanda fréttaskýringaþáttarins Kveiks, á samfélagsmiðlum um Samherja feli í sér alvarleg brot á siðareglum.

Siðanefndin vísar frá eða metur svo að siðareglur hafi ekki verið brotnar vegna ummæla tíu annarra starfsmanna RÚV á samfélagsmiðlum um Samherja, að því er RÚV greinir frá.

Engin efnisleg afstaða var tekin til sjálfs fréttaflutningsins.

Samherji kærði 11 starfsmenn RÚV til siðanefndar. Þar var vísað í þriðju grein siðareglna stofnunarinnar þar sem kemur fram að starfsfólk sem fjallar um fréttir, fréttatengt efni og sinnir dagskrárgerð skuli ekki taka afstöðu í umræðu um pólitísk mál og umdeild, þar á meðal á samfélagsmiðlum.

Fram kemur í niðurstöðu siðanefndar að fara þurfi með gát þegar takmarkanir eru settar á tjáningarfrelsi blaða- og fréttamanna í lýðræðisþjóðfélagi. Tjáningarfrelsið verði ekki takmarkað af siðareglum þannig að ekki sé svigrúm til að stíga fram og verja starfsheiður sinn eða fréttastofunnar.

Þar kemur einnig fram varðandi alvarleika brots Helga Seljan að taka verður tillit til þess að ákvæðum siðareglnanna hefur ekki verið beitt fyrr, auk þess sem ekki liggja fyrir skýrar leiðbeiningar frá RÚV um hvernig fréttamenn skuli hafa tjáningu sinni á samfélagsmiðlum. Aftur á móti er um að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma og því telur siðanefndin brot Helga alvarlegt.

Uppfært kl. 15.37:

Hefur ekki áhrif á störf Helga

Fram kemur í umfjöllun RÚV um úrskurðinn að niðurstaða siðanefndar hafi ekki áhrif á störf Helga hjá stofnuninni. 

„Samkvæmt 9. gr. reglna um siðanefnd Ríkisútvarpsins segir að ef niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ekkert kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar um að það eigi við í umræddu tilviki. Niðurstaðan hefur því ekki áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV,“ segir í umfjölluninni. 

„Rétt er að taka fram að kærur Samherja til siðanefndar RÚV snúast ekki um hvað er satt og rétt í fréttaflutningi RÚV um Samherja heldur hvort skrif fréttamanna á samfélagsmiðlum eru smekkleg eða ekki. Siðanefndin fjallaði ekki um fréttir eða fréttaskýringar RÚV, efni þeirra eða vinnslu. Niðurstaða nefndarinnar felur ekki í sér neina afstöðu til fréttanna. Fréttastofa RÚV stendur við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og mun halda áfram að fjalla um fyrirtækið eins og tilefni er til.

Úrskurður nefndarinnar er ítarlega rökstuddur. Yfir hann verður farið nánar af hálfu stjórnenda RÚV og fréttastofu eins og eðlilegt er,“ segir einnig í umfjöllun RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert