Losun mun aukast óháð aðgerðum Vesturlanda

Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að styrkur koltvísýrings í …
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hefur vaxið. Losunin mun halda áfram að aukast á komandi árum óháð loftslagsaðgerðum. AFP

Undanfarin ár hefur sífellt verið lögð aukin áhersla á mikilvægi baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og hefur grundvöllurinn að árangri í þeim efnum verið stöðug vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega koltvísýringi. Hins vegar bendir öll tölfræði til þess að aðgerðir í þeim efnum séu ekki endilega að skila árangri þegar á heildina er litið.

Ef litið er til 27 ríkja Evrópusambandsins og Bretlands hefur losunin dregist saman í flestum flokkum frá árinu 1990 til 2019, að samgöngum undanskildum. Hins vegar hefur losun á heimsvísu aukist gríðarlega á sama tíma.

Heimild: Losunargagnagrunnur fyrir alþjóðlegar loftslagsrannsóknir (EDGAR)
Heimild: Losunargagnagrunnur fyrir alþjóðlegar loftslagsrannsóknir (EDGAR)

Aukin losun er þó ekki vegna fólksfjölgunar en fjöldi rannsókna hefur farið fram á þessu sviði og er fylgni efnahagsþróunar og losunar koltvísýrings ótvíræð. Kórónuveiru- faraldurinn hefur dregið verulega úr umsvifum heimshagkerfisins og því töluverður samdráttur í losun árið 2020 og telja vísindamenn það einnig eiga við um 2021. En þessi ár eru frábrugðin því sem mætti kalla „eðlilegar“ aðstæður og má gera ráð fyrir áframhaldandi vexti losunar í takti við efnahagsþróun í þeim ríkjum sem munu sjá mesta vöxtinn á komandi árum.

Eykst á komandi árum

Navroz K. Dubash og Ankit Bhardwaj hjá rannsóknasetri um stjórnsýslu (Centre for Policy Research) í Nýju-Delí á Indlandi spá því að losun Indlands kunni að aukast um ríflega átta hundruð megatonn fram til ársins 2030 og er það með fyrirvara um að endurnýjanlegir orkugjafar verði ódýrari.

Spár gera ráð fyrir að heildarlosun Kína haldi áfram að aukast á komandi árum, en þó mun aukning losunar líklega verða hægari en verið hefur enda hafa kínversk stjórnvöld lagt mikla áherslu á að minnka losun miðað við þjóðarframleiðslu. Hvort þetta skili einhverju skal ósagt látið, en ef Bandaríkjunum og Evrópu tekst að minnka losun um 50% miðað við stöðuna 1990, eða um 4.736 milljónir tonna (megatonn) af koltvísýringi, hefur Kína nú þegar aukið losun sína um 4.393 megatonn umfram þennan hugsanlega samdrátt hjá Vesturlöndum. Nettólosun koltvísýrings er því ekki líkleg til að minnka.

Kína losar lang mestan koltvísýring í heiminum.
Kína losar lang mestan koltvísýring í heiminum. EPA

Samkvæmt skýrslu sem unnin var 2018 fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun orkuþörf í Afríku tífaldast til ársins 2065. Þá má gera ráð fyrir að losun Afríku- ríkja aukist gríðarlega á komandi árum, að því er fram kemur í vísindagrein um þróun og drifkrafta losunar koltvísýrings sem birt var 22. febrúar í vísindatímaritinu Environmental Research Letters.

Til þess að ríkin í Afríku geti staðið við alþjóðlegar loftslagsskuld- bindingar þurfa þau að fjárfesta í orkugjöfum með litla losun og benda vísindamenn meðal annars á kjarnorku og orkuframleiðslu sem felur í sér kolefnisbindingu eins og orku úr lífmassa. Vandinn er hins vegar sá að þessir orkugjafar munu ganga á vatnslindir Afríku sem víða um álfuna eru þegar komnar að þolmörkum vegna heimilishalds, matvælaframleiðslu og iðnaðar.

Bætt lífskjör

Hagvöxtur um heim allan hefur gert það að verkum að sífellt fleiri hafa betri lífskjör og stærri hluti mannkyns hefur því efni á að ferðast og hefur losun frá flugi aukist um 143% frá 1990 til 2019. Það er því fátt sem bendir til annars en að losunin muni aukast á ný þegar takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt. Losun frá flugi 2019 nam 627 megatonnum af koltvísýringi, sem er um það bil jafn mikið og öll Indónesía losaði það ár, en þar búa um 270 milljónir manns.

Losun frá alþjóðlegu flugi er álíka mikil og heildarlosun Indónesíu.
Losun frá alþjóðlegu flugi er álíka mikil og heildarlosun Indónesíu. AFP

Eftir því sem umsvif hagkerfa hafa aukist hafa einnig alþjóðleg viðskipti færst í aukana og hafa myndast flóknar flutnings- og virðiskeðjur. Hefur því losun frá siglingum tæplega tvöfaldast frá 1990 og nam losun skipa um 730 megatonnum árið 2019.

Ekki verður séð með hvaða hætti er hægt að minnka losun koltvísýrings nema með stórfelldri uppbyggingu kjarnorkuvera, að fundin verði leið til að hagnýta kjarnasamruna eða draga úr lífskjörum.

Staðreyndin er sú að hlutfallsleg efnahagsumsvif Vesturlanda og annarra ríkja sem nú eru talin með þróuðustu hagkerfum heims munu minnka. Árið 2050 mun Indland verða næststærsta hagkerfi heims og íbúafjöldi Nígeríu hafa náð 400 milljónum manns, svo dæmi séu tekin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »