Maður og hestur fóru niður um ís

Hrísatjörn að sumri til.
Hrísatjörn að sumri til. Ljósmynd/Vefur Dalvíkurbyggðar

Maður og hestur fóru niður um ís á tólfta tímanum í dag á Hrísatjörninni við Dalvík. 

Maðurinn var á hestbaki þegar ísinn lét undan og fóru þeir báðir niður um ísinn segir vakthafandi lögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Að sögn varðstjóra á Tröllaskaga var vanur hestamaður á ferð sem hafði mælt ísinn skömmu áður. „Síðan var búið að gera rás, einskonar reiðhring á ísnum, og hann telur það vera ástæðuna.“ Hláka hefur verið undanfarna daga á svæðinu og þegar maðurinn ætlaði að halda heim þveraði hann vatnið og lendir yfir rásinni, þar sem ísinn gaf eftir. 

Stóð tæpt

Manninum tókst að koma sér á ísinn og halda hestinum uppi og hringja á eftir hjálp. Hann hringdi á vin sinn sem kallaði eftir meiri aðstoð og var að sögn varðstjóra nokkur viðbúnaður á tjörninni í dag þar sem lögregla og björgunarsveitarfólk voru kölluð út.

Varðstjórinn á Tröllaskaga segir í samtali við mbl.is að það hafi komið þeim á óvart hve djúpt var á staðnum þar sem félagar fóru niður, það var utarlega í vatninu en ekki í því miðju. Hann segir einnig að björgunin hafi tekið nokkuð á og hafi staðið tæpt um tíma. 

„Hann [maðurinn] er bara eldhress og er búinn að pakka hestinum inn og fá sér kaffibolla.

Hvorki manninum né hestinum varð meint af atvikinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert