Ferðamenn sem hingað koma verða bólusettir

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor.
Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor. mbl.is/Golli

„Ferðaþjónustufyrirtæki, ferðaskrifstofur og hótel hafa ekki séð erlendan ferðamann síðan í ágúst á síðasta ári,“ segir Ásberg Jóns­son, stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri Nordic Visitor í samtali við mbl.is.

Hann vill meina að hertar takmarkanir nú í kjölfar fjölgunar Covid-19-smita á Íslandi snerti ferðaþjónustufyrirtæki takmarkað, það séu hvort eð er engir ferðamenn.

„Það er einhver algengur misskilningur í gangi að landið sé að fyllast af ferðamönnum, vegna þess að þau fyrirtæki sem ég hef talað við, við erum alltaf að velta því fyrir okkur; hvar eru þessir ferðamen? Þegar talað er um ferðamenn, þetta eru náttúrulega bara einhverjir Íslendingar að ferðast á milli landa og útlendingar sem búa hérna.“

Þá segir Ásberg flesta ferðaþjónustuaðila á þeirri skoðun að fyrst að landinu var lokað, þegar þessar hörðu aðgerðir með tvöfaldri skimun voru settar á í lok síðasta sumars, þá hefðu menn bara átt að fara alla leið og hafa fólk á sóttkvíarhótelum allan tímann.

„Vegna þess að þá hefðu alla vega hótelin getað fengið einhver viðskipti. Ég held að flestir í ferðaþjónustu séu algjörlega á því að fyrst að það þurftu að vera þessar aðgerðir, fimm daga sóttkví og tvöföld skimun, þá áttu menn bara að fara alla leið. Í dag er eru hagsmunirnir varðandi þessar aðgerðir ekkert hagsmunir ferðaþjónustunnar, að liðka fyrir eða herða. Vegna þess að ferðamennirnir eru hvort eða er ekkert að koma. Það getur vel verið að það slæðist inn einhver einn og einn en þeir eru svo fáir að það tekur því ekki fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að halda starfsemi opinni.“

Jarðböðin í Mývatni eru vinsæll áningarstaður ferðamanna.
Jarðböðin í Mývatni eru vinsæll áningarstaður ferðamanna. Ljósmynd/Baldur Arnarsson

Skilgreina þarf ferðamenn 

Ásberg vill meina að það vanti orð sem gerir greinarmun á því sem á ensku kallast tourist eða á vondri íslensku kallast túristi, og síðan fólki sem ferðast. 

„Erlendir ferðamenn sem koma til landsins til að sjá landið og upplifa, þeir eru ekki á landinu, ekki nema örfáir. Þá er sko alveg eins gott að hafa landamærin bara lokaðri.“

Þá telur hann ferðaþjónustuna fagna því að fólk frá dökkrauðum löndum samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu verði sett í farsóttarhús. „Það verður þá alla vega eitthvað að gera hjá hótelunum.“ Hann segir gjaldtöku eða ekki gjaldtöku í farsóttarhúsin ekki munu skipta neinu máli þegar upp er staðið.

Vill valkosti fyrir fólk í sóttkví 

Frekar segir hann mikilvægt að hægt verði að bjóða upp á einhvers konar valkosti þegar kemur að farsóttarhúsum. Að það verði í boði að leigja kannski íbúð og greiða aukalega fyrir þægindin. Frekar en að vera settur í lítið herbergi á minna vönduðu hóteli. 

Þeir sem eru bókaðir núna hjá okkur, og það gengur bara vel að bóka fyrir sumarið, þetta eru allt saman bólusettir einstaklingar. 

Hann telur litakóðunarkerfið ekki segja jafn mikið til um ferðalög fram í tímann og bólusetningar gera. Þá telur hann mikilvægasta skrefið sem tekið hefur verið gagnvart ferðaþjónustunni vera yfirlýsing stjórnvalda um að taka bólusetningarskírteini Breta og Bandaríkjamanna gild.

„Þau sem eru að bóka sér ferðir fyrir sumarið vita ekkert hvort landið þeirra verði rautt eða gult þegar að því kemur.“

Lengri og dýrari ferðir

„Evrópa er ekkert byrjuð að bóka ferðir til Íslands, eða í mjög litlum mæli. Þetta eru langmest Bandaríkjamenn. Þeir eru byrjaðir að bóka alveg mjög hressilega.“ Einnig nefnir Ásberg að bólusettir einstaklingar frá Evrópu séu byrjaðir að bóka ferðir til Íslands eða þeir sem telja sig verða bólusetta fyrir sumarið.

„Þeir ferðamenn sem við erum að fara að fá í sumar verða að miklu leyti bólusettir. Óbólusett fólk sem ætlar að koma hér í gegnum litakóðunarkerfið mun bóka seint og með litlum fyrirvara,“ segir Ásberg. Hann kveðst bjartsýnn fyrir framhaldið enda sé umferð á heimasíðu Nordic Visitor, sem er ferðaskrifstofa, á við árið 2019.

„Fjöldi Bandaríkjamanna sem skoða vefinn minn daglega er orðinn meiri en á sama tíma árið 2019. Þetta útspil, að tilkynna núna að bólusettir einstaklingar geti komið til landsins, voru gríðarlega öflug skilaboð út á við. Vegna þess að þarna náðum við ákveðnu forskoti á aðrar Evrópuþjóðir. Fjöldi áfangastaða sem er í boði fyrir Bandaríkjamenn er ekkert rosalega mikill. Núna vita þeir að ef þeir eru bólusettir þá geta þeir komið til Íslands.“

Eldgosið í Geldingadölum er stundum kallað hið fullkomna túristagos.
Eldgosið í Geldingadölum er stundum kallað hið fullkomna túristagos. Kristinn Magnússon

Þá sjá Ásberg og Nordic Visitor fram og gott haust og góðan vetur. 

„Haustið á síðan eftir að verða mjög gott, ágúst og september. Við trúum því að megnið af Íslendingum verði bólusettir fyrir lok júlí og fylgi þannig Evrópu. Þannig að við gætum líka verið að sjá góðar bókanir í sumar fyrir veturinn,“ segir Ásberg og bætir því við að eldgosið hafi komið á hárréttum tíma.

Það er ýmislegt áhugavert í tölunum í dag. Meðallengd á dvöl sem er bókuð hjá okkur er þremur til fjórum dögum lengri en hún var áður. Sömuleiðis er meðalferðin sem við erum að selja dýrari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert