Skoða skjálftavirkni undir Lambafelli

Virknin hefur verið undir Lambafelli undanfarna daga.
Virknin hefur verið undir Lambafelli undanfarna daga. Kort/map.is

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða nú gaumgæfilega skjálftahrinu sem varð í nótt og í morgun undir Lambafelli við Þrengslin. Hrinan kemur í kjölfar aukinnar virkni á svæðinu sem hófst aðfaranótt föstudags.

Tveir skjálftar, annar af stærðinni 2,6 og hinn 2,9 að stærð, voru þeir stærstu í hrinunni í nótt.

„Það er verið að skoða þetta,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við mbl.is.

Ekki vart við neitt í námunum

Skjálftarnir hafa orðið á um 5 til 6 kílómetra dýpi.

„Þetta virðist ekki tengjast niðurdælingum. Og ÍAV, sem eru með námur þarna, hafa ekki séð neitt hjá sér,“ segir Böðvar.

Spurður hvort þessu sé sérstaklega gefinn gaumur í ljósi eldgossins sem enn er í gangi utar á Reykjanesskaga segir hann að svo sé í raun ekki.

„Við fylgjumst með öllu svona, það koma þarna nokkrir í röð og þess vegna er þetta kannað.“

Eld­stöðva­kerfi á Reykja­nesskaga eru lituð bleik og fleka­skil­in rauð. Jarðhita­svæði …
Eld­stöðva­kerfi á Reykja­nesskaga eru lituð bleik og fleka­skil­in rauð. Jarðhita­svæði eru gul. Sprungu­sveim­ar Hengils til norðaust­urs, og Reykja­ness til suðvest­urs, eru svart­ir. Kort/​Nátt­úru­vá á Íslandi

Varað við 6,5 stiga skjálfta

Af korti yfir eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga má ráða að skjálftarnir hafi orðið innan Hengilskerfisins, sem liggur austast á skaganum.

Vísindamenn hafa varað við því að skjálfti allt að 6,5 að styrkleika geti átt upptök sín í Brennisteinsfjöllum, en það eldstöðvakerfi liggur vestar.

Engin merki eru um að annað gos sé í vændum.

mbl.is