„Það er greinilegt að gosið togar“

Frá eldgosinu í Fagradalsfjalli. Þangað hefur mikill fjöldi fólks lagt …
Frá eldgosinu í Fagradalsfjalli. Þangað hefur mikill fjöldi fólks lagt leið sína. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mjög erfitt er að takmarka aðgang að gosstöðvum á Reykjanesskaga nema vegna illviðris, að sögn sóttvarnalæknis. Hann telur að ef fólk gætir sín á sameiginlegum snertiflötum og fjarlægðarmörkum sé smithættan lítil utan dyra. Hann kallar þó eftir því að fólk bíði með ferðir að eldgosinu þar til smitum fer aftur að fækka. 

„Ég held að það sé samdóma álit þeirra sem þarna eru að það sé mjög erfitt að takmarka aðgang að gosstöðvunum nema það sé vont veður sem takmarki. Ef við lokum þessum stígum mun fólk bara fara annars staðar frá þannig að það er erfitt að hamla för fólks,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

„Ég biðla til fólks að gæta vel að sér og vera ekki í miklum hópamyndunum þarna og helst að ganga ekki þarna inn eftir, á meðan við erum að reyna að ná tökum á þessu. Það er greinilegt að gosið togar og það er bara mjög skiljanlegt. Ef allir passa sig og passa þessar hópamyndanir þá ætti þetta að blessast.“

Smithætta möguleg

Í síðustu viku greindist einstaklingur smitaður af kórónuveirunni sem hafði verið á svæðinu við Fagradalsfjall. Aðspurður segir Þórólfur að ekki hafi fleiri greinst smitaðir í kringum þann einstakling.

Er ekki ólíklegra að smitast utan dyra en innan?

„Jú. Það er náttúrlega þannig að ef fólk virðir fjarlægðarmörk er smithættan lítil. En ef það eru mjög margir sem eru að troðast á sama stíg og snerta sama kaðalinn allan daginn fram og til baka þá getur náttúrlega komið upp ákveðin smithætta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert