Búist við margmenni við gosstöðvarnar

„Þetta er enn einn dagurinn við eldgosið í Geldingadölum,“ segir …
„Þetta er enn einn dagurinn við eldgosið í Geldingadölum,“ segir Davíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagurinn fer af stað eins og aðrir dagar við eldstöðvarnar í Geldingadölum. „Þetta er orðin rútína,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. Hann segir nóttina hafa gengið vel og verið rólega. Á svæðinu hafi verið fimm eða sex hópar frá björgunarsveitum við lokanir og gæslu, auk þess sem nokkrar eftirlitsferðir voru farnar um gosstöðvarnar.

Blíðviðri er í kortunum í dag og segir Davíð að búast megi við margmenni á svæðinu en að sambærilegur mannskapur verði þar á vegum björgunarsveitanna. Breytingin er þó sú að Suðurstrandarvegur hefur verið opnaður í báðar áttir eftir bráðabirgðaviðgerð Vegagerðarinnar, auk þess sem leggja verður bifreiðum í þar til gert bílastæði.

Þá verður sá háttur hafður á héðan í frá að gönguleiðir verða opnaðar klukkan níu að morgni og þeim lokað klukkan níu að kvöldi.

Enn einn dagurinn

„Þetta er enn einn dagurinn við eldgosið í Geldingadölum,“ segir Davíð. „Eins og síðustu daga er mikilvægt að fólk virði umferðarreglurnar og vandi sig, en það er búið að lækka hámarkshraðann.“

Í morgun lá gasmökkur yfir aðalgönguleiðinni að gosstöðvunum og segir Davíð að rætt hafi verið að beina fólki að gönguleið B, ytri leiðinni. Staðan muni svo skýrast frekar þegar líði á daginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert