Dágóður fjöldi gæti verið skikkaður í sóttvarnahús

Hér má sjá skilgreiningu sóttvarnastofnunar Evrópu. Farþegar frá rauðu löndunum …
Hér má sjá skilgreiningu sóttvarnastofnunar Evrópu. Farþegar frá rauðu löndunum þurfa að fara í sóttvarnahús við komuna til landsins. Kort/Sóttvarnastofnun Evrópu

Miðað við þær forsendur sem reglugerð heilbrigðisráðherra kveður á um verður „dágóður fjöldi“ fólks sem kemur hingað til lands skikkaður í sóttvarnahús frá og með fimmtudegi, að mati sóttvarnalæknis. Með reglugerðinni verða þeir sem hingað koma frá miklum áhættusvæðum skyldaðir í sóttvarnahús. 

Eins og greint var frá fyrr í dag hafa nokkur smitanna sem greinst hafa utan sóttkvíar undanfarið komið inn í landið í gegnum landamærin. Með hertum aðgerðum á landamærum, sem taka gildi á fimmtudag, standa vonir til þess að hægt verði að stoppa í göt á landamærum. 

„Miðað við þær forsendur sem reglugerðin kveður á um; að fólk sem kemur frá löndum þar sem há tíðni er af smiti þurfi að fara í farsóttarhús, þá gæti þetta orðið dágóður fjöldi. Það er mjög stór hluti Evrópu sem er undir,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Þetta er orðið ansi útbreitt smit“

Spurður hvort aðgerðir innanlands séu of strangar miðað við það hversu fá smit hafa greinst utan sóttkvíar segist Þórólfur algjörlega ósammála því. Það hafi komið bersýnilega í ljós í þriðju bylgju faraldursins að harðar aðgerðir þurfi til þess að takmarka útbreiðslu smita verulega.

„Við erum að reyna að ná þessu strax í byrjun. Þetta er orðið ansi útbreitt smit. Við erum með einstaklinga sem eru að greinast hingað og þangað, á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega. Ef við gerum ekkert í þessu, takmörkum ekki samgang og hópamyndanir fólks, þá nær þetta bara að grassera áfram. Þá fáum við bara miklu stærri bylgju sem mun taka miklu lengri tíma að stöðva.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert