Framsalsbeiðni Albana hafnað árið 2017

Dómsmálaráðuneytið hafnaði framsalsbeiðni albanskra dómsmálayfirvalda árið 2017.
Dómsmálaráðuneytið hafnaði framsalsbeiðni albanskra dómsmálayfirvalda árið 2017. mbl.is/Hjörtur

Albönsk yfirvöld óskuðu eftir því árið 2015 að maðurinn, sem hefur játað að hafa orðið Armando Beqirai að bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í febrúar síðastliðnum, yrði framseldur frá Íslandi til Albaníu. Fréttablaðið greindi fyrst frá. 

Dómsmálaráðuneytið hafnaði þeirri beiðni árið 2017 vegna þess að endanlegur dómur í máli mannsins í Albaníu lá ekki fyrir og því uppfyllti framsalsbeiðnin ekki skilyrði þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Maðurinn var sakfelldur fyrir ránsbrot í Albaníu. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Framsalsbeiðnin var á sínum tíma send úr ráðuneytinu, sem tók hana til meðferðar eins og lög kveða á um, til embættis ríkissaksóknara til frekari afgreiðslu.

mbl.is