Gagnrýnir sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gagnrýndi þær sóttvarnaaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í viðtali við Fréttavaktina á Hringbraut í kvöld. Hún segir að hér hafi stundum verið farið fullhægt í að aflétta sóttvarnaaðgerðum.

„Á einhverjum tímapunkti hljótum við að geta sagt: Jafnvel þótt innanlands séu einstaka smit og á landamærunum komi upp einstaka smit, að þá verði það bara allt í lagi og að af því stafi engin hætta. Þá þurfum við að horfa á: Hvað þurfum við að bólusetja marga og hvaða hópa til þess að geta leyft okkur að svo sé?“ sagði ráðherra. 

Þórdís var spurð hvort hér hefði of miklu verið lokað til að hefta útbreiðslu Covid-19.

„Mér hefur stundum fundist við kannski fulllengi að aflétta og mér hefur fundist við taka svolítinn snúning frá því að tala um að fletja út kúrfu og halda stjórn yfir í það að stefna að veirufríu landi sem er útópía,“ sagði ráðherra. 

„Við þurfum að vera mjög vakandi fyrir því að fara aftur til baka í fyrra horf og ég hugsa til dæmis oft um hvaða fordæmi við erum að setja.“

Spyr sjálf gagnrýninna spurninga

Ráðherra telur að aðrar aðgerðir en umfangsmiklar lokanir skili mestum árangri.

„Við sjáum að það er smitrakning, sóttkví og skimanirnar sem skila langmestum árangri. Það er þannig sem við erum að ná að loka hringnum þegar smitin koma upp, en ekki bara þessar rosalega stóru aðgerðir og ákvarðanir sem við förum í hverju sinni,“ sagði Þórdís.

Þórdís Kolbrún Reykjafjörð Gylfadóttir og Sigríður Á. Andersen við lyklaskipti …
Þórdís Kolbrún Reykjafjörð Gylfadóttir og Sigríður Á. Andersen við lyklaskipti í dómsmálaráðuneytinu á sínum tíma. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað lýst efasemdum um ákvarðanir stjórnvalda í sóttvarnamálum. Spurð hvort hún sé sammála Sigríði segir Þórdís:

„Við erum með borgaraleg grundvallarréttindi fólks, sem við erum og fólk almennt frekar tilbúin að afhenda í þessu ástandi. Það er bara ofboðslega viðkvæmt og vandmeðfarið og mér finnst mjög mikilvægt að við séum með raddir sem eru að spyrja óþægilegra spurninga, erfiðra spurninga og gagnrýninna spurninga. Það geri ég sjálf, bara á þeim vettvangi sem ég er á, til dæmis í ríkisstjórn þar sem ákvarðanir eru bornar upp.“

Gengið mjög langt á landamærunum

Nú stendur til að farþegar frá löndum, þar sem ástand veirunnar er slæmt, verði skyldaðir til dvalar í sóttvarnahúsi meðan á sóttkví stendur. Þórdís Kolbrún segir að vart sé hægt að herða ráðstafanir á landamærum frekar.

„Ég held að það sé ekki hægt að herða þær mikið frekar,“ segir Þórdís.

„Við getum náttúrlega ekki elt fólk inn í landið og út um allt en við erum að reyna að sauma í þessi göt á landamærunum og mér finnst við hafa gengið mjög langt í þeim efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert