Dalurinn hægt og rólega að fyllast

Á ljósmynd Þráins Kolbeinssonar náttúruljósmyndara má sjá hve vel á …
Á ljósmynd Þráins Kolbeinssonar náttúruljósmyndara má sjá hve vel á veg gosið er komið með að fylla dalinn. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Jóhann Helgason jarðfræðingur hefur mælt rúmmál Geldingadala og lægðanna í kring undanfarið til að hægt sé að meta hve lengi þeir verða að fyllast af kviku úr eldgosinu.

Upphaflega var talað um að dalurinn þar sem gosið kom upp myndi fyllast á 10-20 dögum frá upphafi gossins og samkvæmt mati Jóhanns gæti það gengið eftir.

„Ef ég ætti að skjóta á eitthvað myndi ég segja kannski vika til tíu dagar,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is. Eftir þann tíma fari kvikan að ná upp að skarðinu austan megin í dalnum og þaðan líklega að færa sig yfir í Meradali, sem eru töluvert stærri að rúmmáli en gosdalurinn sjálfur, sbr. myndina hér að neðan.

Kort/Jóhann Helgason

Rennslismælingar í gosinu gáfu að mati vísindamanna háskólans mögulega til kynna að farið væri að draga úr mætti gossins. Nýrri mælingar Jarðvísindastofnunar HÍ sýna aftur á móti enga marktæka breytingu. Jóhann kveðst sömuleiðis ekki sjá að dregið hafi úr gosinu.

Dalurinn þar sem gosið hófst er að fyllast hægt og rólega og kvikan streymir til norðvesturs núna. Hún er sem sagt ekki að ferðast í átt að skarðinu þar sem hún byrjar líklegast að fara upp úr dalnum, en ef það gerist getur flæði yfir á önnur svæði hafist mjög skyndilega.

„Segjum að að það brotni veggur úr gígnum að austanverðu, sem kann að gerast þegar magnið að vestanverðu hefur aukist og er farið að skapa álag að austanverðu, þá getur það gerst svolítið skyndilega,“ segir Jóhann.

Jóhann Helgason, jarðfræðingur hjá Landmælingum Íslands, var við eldgosið í …
Jóhann Helgason, jarðfræðingur hjá Landmælingum Íslands, var við eldgosið í dag. Hann telur ekki að farið sé að draga úr gosinu.

Þótt dalurinn fyllist er ekki þar með sagt að strax byrji að leita í aðrar lægðir, heldur er einnig möguleiki að það nái að taka á sig dyngjulögun og þá verður hraunflæðið ekki út á við heldur fer það að flæða jafnt yfir gígveggina hringinn um kring og mynda hefðbundna dyngju.

Lægðirnar fyllist allar á innan við þremur mánuðum

Jóhann sagði í samtali við Morgunblaðið í sérblaði um eldgosið að líklegt væri að hraunflæðið haldi sig fyrst við Geldingadali. Síðan flæði hraunið um skarðið til austurs og þaðan líklega fyrst norður í Meradali en að ekki sé hægt að útiloka rennsli suður í Nátthaga á einhverju stigi. Jóhann segir að rúmmál Geldingadala sé 6,8 Mm(milljónir rúmmetra), Nátthaga 4,3 Mm3og Meradala 44,7 Mm3. Samtals er stærð þessara þriggja lægða 55,8 Mm3.

Kvikuuppstreymið í Geldingadölum er 5-10 m3/sek. að mati jarðfræðinga. Rætt er um að gosið geti orðið langvinnt. Hraunrennsli miðað við 5m3/sek. í eitt ár gefur 158 Mmog ef hraunrennslið er 10 m3/sek. verður hraunið orðið 316 Mm3 eftir eitt ár. 

„Samkvæmt þessum útreikningum myndu allar lægðirnar fyllast á innan við þremur mánuðum. Nái hraun að renna í Nátthaga er, fljótt á litið, mesta hætta á tjóni þar því sú lægð er lítil og þunnfljótandi hraunið ætti greiða leið til sjávar ef hún fylltist,“ sagði Jóhann. Hann bendir einnig á að sunnar í Geldingadölum sé annað skarð til austurs í 229 metra hæð. Ætla má að þaðan geti lekið hraun niður í Nátthaga.

mbl.is