Katrín ósammála Þórdísi

Forsætisráðherra telur ekki að ósætti sé að aukast innan ríkisstjórnar …
Forsætisráðherra telur ekki að ósætti sé að aukast innan ríkisstjórnar um sóttvarnaráðstafanir. Hér eru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir við Ráðherrabústaðinn eftir einn ríkisstjórnarfundinn, en á þeim hefur kórónuveiran verið helsta umræðuefnið undanfarið ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ítrekar að sitjandi ríkisstjórn beri ábyrgð á þeim sóttvarnaaðgerðum sem ráðist hafi verið í hingað til, þegar hún er spurð álits á ummælum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í fjölmiðlum í gær, þar sem hún gagnrýndi sóttvarnaaðgerðir stjórnarinnar.

Spurð hvort hér hefði of miklu verið lokað vegna Covid-19, sagði Þórdís í gær: „Mér hef­ur stund­um fund­ist við kannski full­lengi að aflétta og mér hef­ur fund­ist við taka svo­lít­inn snún­ing frá því að tala um að fletja út kúrfu og halda stjórn yfir í það að stefna að veiru­fríu landi sem er út­ópía.“

Katrín tekur ekki undir það hjá Þórdísi, að stefnubreyting hafi átt sér stað hjá ríkisstjórninni.

„Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið frá upphafi að vernda líf og heilsu landsmanna og lágmarka samfélagslegan og efnahagslegan skaða,“ segir Katrín. 

„Þannig er stefna ríkisstjórnarinnar. Það hefur aldrei neinn lofað veirufríu landi, svo að það sé líka sagt. Það er auðvitað eðli þessarar veiru að það er mjög erfitt að stýra útbreiðslu hennar þegar hún kemst á flug og auðvitað taka ráðstafanirnar mið af því,“ segir forsætisráðherra.

Þórdís Kolbrún sagði í viðtali á Hringbraut í gær að …
Þórdís Kolbrún sagði í viðtali á Hringbraut í gær að henni þætti mikilvægt að hafa raddir í eigin flokki sem spyrðu gagnrýninna spurninga um sóttvarnaráðstafanir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einhverjum kann að þykja skrefin of varfærin

Ertu ósammála því að hér hafi verið farið of hægt í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum?

„Ég get sagt að við höfum nálgast þetta með mjög varfærnum hætti og höfum ekki viljað taka neina áhættu í þeim skrefum sem við höfum stigið allt þetta ár. Einhverjum kann að þykja það of varfærið en eins og ég hef litið á þetta ár er þetta mikið lærdómsferli.

Forsætisráðherra tilkynnti í síðustu viku að sóttvarnaaðgerðir yrðu hertar vegna …
Forsætisráðherra tilkynnti í síðustu viku að sóttvarnaaðgerðir yrðu hertar vegna þess sem óttast var að kynni að reynast fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég hef sjálf sagt að það hafi hugsanlega tekið of langan tíma að ráðast í aðgerðir í haust. Þannig að de facto er hægt að meta hverja einustu vendingu í þessum faraldri með þessum gleraugum en heilt yfir höfum við frekar verið varfærin heldur en hitt,“ segir Katrín.

En út á við, finnst þér eðlilegt að ráðherra gagnrýni aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum?

„Ja, ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessum aðgerðum. Þannig lít ég á málið.“

Það er að segja, hún? 

„Ja, ég meina, ríkisstjórnin hefur hingað til verið mjög samstíga. Það er algerlega rétt sem ráðherrann segir að það hefur verið spurt bæði af henni og öðrum gagnrýninna spurninga og við höfum átt heilmiklar umræður um þessi mál á hverju stigi. En ég hef litið svo á að ríkisstjórnin sé samstíga og beri ábyrgð á þessum ráðstöfunum.“

Katrín segir loks að hún telji ekki að ósætti sé að aukast innan stjórnarinnar um sóttvarnaaðgerðir. „Það myndi ég ekki telja,“ segir forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert