Mygluvöxtur í sjö sýnum úr Korpuskóla

Húsnæði Korpuskóla hýsir nú starfsemi Fossvogsskóla. Mygla hefur greinst á …
Húsnæði Korpuskóla hýsir nú starfsemi Fossvogsskóla. Mygla hefur greinst á báðum stöðum. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Búið er að taka 18 sýni úr byggingarefnum á svæðum þar sem er óvissa ríkir um ástandið í Korpuskóla. Búið er að greina öll sýnin og reyndust sjö hafa verið með mygluvexti í byggingarefnum en 11 þeirra voru án myglu. Beðið er eftir niðurstöðum úr sex sýnum. 

Unnið verður að viðgerðum á húsnæði Korpuskóla um páskana en skoðun á húsnæðinu leiddi í ljós ýmsar skemmdir sem nauðsynlegt er að bregðast við til að tryggja heilnæmi skólahúsnæðisins.

Samráð hefur verið haft við starfsfólk og foreldra nemenda í Fossvogsskóla vegna framkvæmdanna en nýverið var ákveðið að flytja starfsemi skólans tímabundið í húsnæði Korpuskóla sem hefur staðið ónotað að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Ekki næst að ljúka öllum viðgerðum áður en skólastarf hefst á ný eftir páskafrí. Því verður lögð áhersla á að klára viðgerðir á íverurýmum nemenda og kennara.

Heilbrigðiseftirlitið tekur húsnæðið út

EFLA verkfræðistofa annast eftirlit með framkvæmdunum og hefur skilað til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar lista yfir staði í húsnæðinu sem leggja þarf sérstaka áherslu á í viðgerðunum.  

Um að ræða skemmdir á gólfdúk og í veggjum; bæði múr- og gifsveggjum, og rakaskemmda vaskaskápa. Ummerki um raka fundust í loftum auk þess sem EFLA gerði athugasemdir við frágang á gluggum, hurðum og í kringum niðurföll.

Á þriðjudaginn kemur mun Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur taka út húsnæði Korpuskóla og munu fulltrúar EFLU jafnframt vera á staðnum. Sérstakir upplýsingafundir vegna framkvæmdanna í Korpuskóla verða haldnir á þriðjudag með þátttöku EFLU, annars vegar með starfsfólki Fossvogsskóla og hins vegar með foreldrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert