Segir kröfu Samherja atlögu að Helga Seljan

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, segir kröfu Samherja um að Helgi …
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, segir kröfu Samherja um að Helgi Seljan fái ekki lengur að fjalla um Samherja, vera enn aðra aðför að frétta- og blaðamönnum RÚV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, hefur sent frá sér tilkynningu um úrskurð stjórnar RÚV, frá því fyrr í dag, þar sem stjórnin hafnaði kröfu Samherja um að Helga Seljan fréttamanni yrði bannað að fjalla meira um fyrirtækið. Hún segir að ógerningur sé að slíta kröfu Samherja frá skipulagðri aðför félagsins að frétta- og blaðamönnum, sem fjallað hafa um málefni þess á undanförnum misserum.

Rakel segir að stjórn RÚV hafi ekki getað komist að annarri niðurstöðu í málinu, enda skýrt að stjórn RÚV komi ekki að ritstjórn RÚV. Einnig ítrekar hún að siðanefnd RÚV hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu að Helgi hafi brotið starfsskyldur sínar með ummælum sínum, sem hann lét falla á samfélagsmiðlum.

Hún segir að aðför Samherja hafi aðeins einn tilgang: að kæfa gagnrýna umfjöllum um fyrirtækið og líkir því við að skjóta sendiboða svo upplýsingar skili sér ekki til almennings.

Kerfisbundin atlaga Samherja

Helgi Seljan og aðrir fréttamenn fréttaskýringarþáttarins Kveiks, sem er á dagskrá RÚV, hafa að undanförnu fjallað um meint brot Samherja, sem til rannsóknar eru bæði á Íslandi og erlendis. Rakel segir í tilkynningunni að þau meintu brot séu umfangsmikil.

Í lok tilkynningar sinnar rifjar Rakel upp myndbönd, sem Samherji hóf að senda frá sér í ágúst síðastliðnum, þar sem stjórnendur Samherja saka fréttamenn RÚV um að fara með ósannindi. Það segir Rakel að hafi brotið blað í íslenskri sögu ásamt því að hún segir myndbönd Samherja hafa verið kerfisbundna atlögu, sem felur í sér lýðræðislega ógn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert