Fyrstu vistmenn sóttkvíarhótelsins innritaðir

Fyrsta sóttkvíarhótelið var tekið í gagnið í morgun.
Fyrsta sóttkvíarhótelið var tekið í gagnið í morgun. Ljósmynd/Rauði krossinn

Fyrsta sóttkvíarhótelið var opnað í Þórunnartúni í Reykjavík í morgun. Í dag tóku gildi nýjar reglur um komur erlendra ferðamanna og kveða þær á um að allir sem koma frá svokölluðum hááhættusvæðum (dökkrauðum eða gráum á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu) þurfi að dvelja á sóttkvíarhótelum ríkisins meðan á sóttkvínni stendur.

Sjúkratryggingar leigja húsnæði undir starfsemina en Rauði krossinn hefur umsjón með hótelinu og þjónustar gesti þess. Fyrstu gestir eru komnir á hótelið, en fyrsta vél dagsins kom frá Bretlandi klukkan átta í morgun. Bretland er ekki dökkrautt land, en miðað er við upprunaland farþega og þurftu því einhverjir farþegar sem höfðu flogið gegnum Bretland frá dökkrauðum löndum að innrita sig á hótelið.

Fimm aðrar vélar eru væntanlegar til landsins í dag, þar af þrjár frá dökkrauðum löndum. Upplýsingar um hvaða lönd falla undir skilgreininguna má finna hér.

„Við erum stolt af því hve hratt og vel uppsetning sóttkvíarhótelsins gekk. Fyrsti dagurinn fer rólega af stað en við erum tilbúin fyrir komandi gesti sem mun að öllum líkindum fjölga hratt. Ég er ánægð með hótelið sem hentar þessari breyttu starfsemi vel og við erum heppin með öflugan og góðan hóp starfsfólks,“ segir Áslaug Ellen Yngvadóttir, annar umsjónarmanna sóttkvíarhótelsins.

„Ég held við séum bara eins vel undirbúin og hægt er í þessum aðstæðum og munum gera okkar allra besta til að gera dvöl allra okkar gesta hér sem þægilegasta.“

mbl.is