RÚV fari af auglýsingamarkaði

Kolbeinn Óttarsson Proppé og Óli Björn Kárason eru á öndverðum …
Kolbeinn Óttarsson Proppé og Óli Björn Kárason eru á öndverðum meiði um stöðu Ríkisútvarpsins. Ljósmynd/Samsett

Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi, sem miðar að því að Ríkisútvarpið hætti að selja auglýsingar. Frumvarpið var lagt fram í gær, en Kjarninn greindi fyrst frá.

Samkvæmt frumvarpinu verður Ríkisútvarpinu óheimilt að markaðssetja, kynna, selja eða birta þar auglýsingar og afla tekna með kostun dagskrárefnis. Breytingin yrði innleidd í tveimur skrefum, takmörk yrðu sett um næstu áramót og Ríkisútvarpið endanlega farið af auglýsingamarkaði í ársbyrjun 2024.

Í samtali við mbl.is segir Óli Björn að frumvarpið sé lagt fram nú sem svar við frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna miðla. Fjögur hundruð milljónum var í fyrra úthlutað til þeirra, en það var einskiptisaðgerð sem réttlætt var með heimsfaraldri. Verði frumvarp ráðherra að lögum yrðu slíkir styrkir hins vegar árlegir.

„Menn forðast að skera meinið í burtu en vilja þess í stað gefa sjúklingnum lyf,“ segir Óli Björn, og vísar til meinsins sem sé samkeppnisrekstur Ríkisútvarpsins. Hann vilji byrja á að leiðrétta leikreglurnar.

Tekjur RÚV af sölu auglýsinga og kostun eru um 2,2 milljarðar á ári en sölunni fylgir vitanlega nokkur kostnaður og er hagnaður RÚV því minni. Engu að síður er ljóst að RÚV yrði af háum fjárhæðum ef frumvarpið næði fram að ganga. Spurður hvort til standi að bæta RÚV tjónið segir Óli það seinni tíma spurningu, sem kæmi fram við gerð fjárlaga.

Kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum

Aðeins eru nokkrar vikur síðan Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skipaði þriggja manna sáttanefnd innan ríkisstjórnarflokkanna til að sætta ólík sjónarmið þeirra um stöðu Ríkisútvarpsins. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, er formaður þeirrar nefndar.

Í samtali við mbl.is segir Kolbeinn að frumvarp Óla Björns og Brynjars komi eins og skrattinn úr sauðarleggnum ofan í vinnu starfshópsins en viðurkennir aðspurður að það sé til marks um hve erfitt verk er að sætta stjórnarflokkana um þessi mál.

„Við höfum aldrei dregið fjöður yfir það að það er himinn og haf milli Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins,“ segir Kolbeinn. Engu að síður hafi verið ákveðið að skipa starfshópinn til að sjá hvort sætta mætti ólík sjónarmið. „Það verður ekki gert þegar menn setja fram sínar ýtrustu kröfur,“ segir Kolbeinn en bætir við að hann telji tillöguna frekar til heimabrúks fyrir væntanlegan prófkjörsslag innan Sjálfstæðisflokksins.

Starfshópur stjórnarflokkanna um málefni RÚV átti að ljúka störfum nú um mánaðamót, en Kolbeinn segir að einhver töf verði á því. Hann á þó von á að þingmennirnir, sem skipa hópinn, muni skila ráðherra tillögum fljótlega eftir páska. Kolbeinn vill ekki ræða þær tillögur fyrr en þeim hefur verið skilað til ráðherra, en segir þó að frumvarp Óla Björns og Brynjars sé ekki í neinu samræmi við þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert