„Viðskilnaður við raunveruleikann“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður og þingmaður Miðflokksins, segir að það hafi komið sér verulega á óvart að þingflokkur Viðreisnar hafi lagt fram þingsályktunartillögu um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. 

Greint var frá þingsályktunartillögunni á miðvikudag, 31. mars. Sama dag var einnig greint frá því að Cocoa Puffs og Lucky Charms yrðu ekki lengur fáanleg á íslenskum markaði. Sigmundur deildi á facebooksíðu sinni fyrirsögnum beggja frétta og sagðist fyrst hafa haldið að um aprílgabb væri að ræða. 

Í samtali við mbl.is segist Sigmundur furða sig á þingsályktunartillögu Viðreisnar, sérstaklega í ljósi gagnrýni á Evrópusambandið í bóluefnamálum. 

„Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta sé að koma fram, sérstaklega núna. Ég reyndar hélt að jafnvel flokkar eins og Viðreisn og Samfylkingin sem eru veikir fyrir ESB væru ekki að spá í það í bili að reyna að gera það að pólitísku máli. Mér finnst það blasa við eftir allt sem á undan er gengið, ekki bara út af Covid-ástandi heldur líka varðandi tilraunir okkar til að ná okkur á strik efnahagslega sem hafa gengið mjög vel vegna þess að við erum utan ESB, þá hélt ég að þetta væri komið í dvala að minnsta kosti,“ segir Sigmundur. 

Viðbúið á kosningaári 

„Á sama tíma og Evrópusambandið er í enn einni stórkrísunni vegna bóluefnamála, og búið að draga okkur inn í sinn vandræðagang í þeim efnum, að leggja það þá til að í stað þess að fara okkar eigin leið sem hefur reynst vel að fara þá bara alla leið inn. Þetta kom mér mjög á óvart og mér fannst þetta eiginlega skondið. Þetta er svo mikill viðskilnaður við raunveruleikann. Það er einhver skortur á tengingu við umheiminn og veruleikann sem hlýtur að valda þessu,“ segir Sigmundur. 

Hann segir þingsályktunartillöguna bera þess merki að samkeppni sé á milli Viðreisnar og Samfylkingarinnar um að hreppa titilinn „ESB-flokkurinn á Íslandi“.

„Þetta er eitthvað sem maður hefði kannski búist við á kosningaári frá Viðreisn eða Samfylkingu, sérstaklega þegar það er komin smá samkeppni þeirra á milli um að vera ESB-flokkurinn á Íslandi. En eftir allt sem á undan er gengið og miðað við aðstæðurnar núna, þá kom þetta verulega á óvart. En það virðist vera matið þarna núna að þessi samkeppni sé enn í gangi, þó að þetta sé að mínu mati vafasamur heiður, og Viðreisn virðist hafa viljað vera á undan,“ segir Sigmundur. 

Þykir Cocoa Puffs gott 

Hvað varðar þær fregnir að tími morgunkornsins Cocoa Puffs hér á landi sé nú liðinn segir Sigmundur að sér þyki morgunkornið vissulega gott. Hann borði það þó ekki oft. 

„Ég tek þetta nærri mér. Reyndar hef ég ekki borðað Cocoa Puffs í svolítið langan tíma, ég er búinn að vera að reyna að taka mig á. Í síðasta mánuði sleppti ég hveiti, sykri, áfengi og öllu slíku og náði smá árangri með því. En mér finnst Cocoa Puffs þó gott, ég viðurkenni það. Þegar það er ekki prívat bann á neyslu sykurvara og það er til Cocoa Puffs í skápnum, þá myndi ég alveg fá mér tvær skálar. Ég vil allavega hafa þennan möguleika til staðar fyrir þá sem mega við því. Mér finnst óeðlilegt að það sé verið að taka slíkan möguleika af fólki,“ segir Sigmundur. 

Ég var að reyna að átta mig á því hvað af þessu væri aprílgabb mbl.is en sá svo að það er 31. mars.

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Miðvikudagur, 31. mars 2021
mbl.is