Fyrsta gjóskufallið orðið að veruleika

Fyrsta gjóskufallið varð í gær eða í nótt.
Fyrsta gjóskufallið varð í gær eða í nótt. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Kaflaskipti urðu í gosinu í Geldingadölum þegar fyrsta marktæka gjóskufallið frá Norðra varð að veruleika. Austlægur útbreiðsluás bendir til þess að það hafi gerst í gær eða í nótt, aðfaranótt föstudagsins langa.

Gjóskufallið myndar mjóan geira sem nær yfir hraunið austan gíganna og nokkra tugi metra upp hlíðina á móti að því er fram kemur í umfjöllun eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands.

Eins og kemur fram á myndunum er gjóskan er einstaklega falleg, gulllituð vikurkorn (e. Golden Pumice), sem í raun eru frauð með þéttpökkuðum smáum hringlaga blöðrum. Í sumum tilvikum eru blöðrurnar marghorna, sem er vitnisburður um þroskuð froðu [sic]. Jafnframt inniheldur gjóskufallið talsvert af nornahárum (liggja á mosa á myndunum) og eru allt að 10 cm löng. Nornhár (e. Pele's hair) myndast þegar kvikan er teygð út í örmjóa strengi, líkt og þegar „deigt toffí“ (þ.e. karamella) er slitin í sundur og dregin út,“ segir í færslunni.

Norðri og Suðri voru í góðum gír í dag, nokkuð stöðugt gasútstreymi og lagði mökkinn í austurátt með tilhlýðandi mengun. Hraunflæði var stöðugt og hraunáin er búin að hækka sig talsvert og hefur byggt myndarlega „hraunbakka“,“ segir þar jafnframt.

Ljósmyndirnar með færslunni tóku Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson.

mbl.is