Lætur reyna á rétt sinn fyrir dómstólum

Fosshóteli hefur verið breytt í sóttvarnahús.
Fosshóteli hefur verið breytt í sóttvarnahús. mbl.is/Árni Sæberg

Einn einstaklingur, sem dvelur nú í sóttvarnahúsi eftir að hafa komið til landsins að utan, hefur óskað eftir því að vera látinn laus og lætur nú reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Þetta herma heimildir mbl.is.

Sá sem um ræðir hefur til umráða sumarbústað þar sem hann hugðist halda sóttkví en með reglugerð heilbrigðisráðherra, sem tók gildi í gær, eru allir sem koma til landsins frá skilgreindum hááhættusvæðum skikkaðir í fimm daga sóttkví í sóttvarnahúsi. 

Uppfært:

Ákvað konan sem á í hlut að láta reyna á rétt sinn sökum aðbúnaðar í sóttvarnahúsinu.

Reynir á valdaframsal og ný sóttvarnalög

Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar má engan svipta frelsi nema með heimild í lögum. Því er líklegt að í málinu muni reyna á þetta ákvæði sem og reglur um meðalhóf, valdframsal og sóttvarnalög sem hafa nýtekið gildi.

Þá kemur til skoðunar hvort skilgreining á sóttvarnahúsi, sem lögfest er í 1. gr. sóttvarnalaga, veiti reglugerðinni næga lagastoð. Skilgreiningin hljóðar svo:

„Sóttvarnahús: Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“

Hafa þeir sem aðsetur hafa á Íslandi verið látnir falla undir reglugerðina og er búist við því að dómstólar úrskurði um lögmæti þess.

Reglugerð heilbrigðisráðherra
Lög um breytingar á sóttvarnalögum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert